Nova hagnaðist um 807 milljónir króna í fyrra, samanborið við 729 milljóna króna hagnað árið áður. Tekjur námu 13,3 milljörðum króna og jukust um 2,5% milli ára en þjónustutekjur námu tæpum 10,4 milljörðum og jukust um 6,4% frá fyrra ári. EBITDA nam 4.128 milljónum króna og rekstrarhagnaður, EBIT, 1.862 milljónum.

Þetta kemur fram í uppgjöri samstæðunnar fyrir fjórða ársfjórðung en hagnaður á fjórðungnum nam 244 milljónum og jókst um 33,9% frá sama tímabili 2023.

Fram kemur í uppgjörinu að stjórn Nova hafi ákveðið að stofna sérstakt innviðafélag um lykilinnviði, dreifikerfi og stofnnet, sem verður að fullu í eigu Nova Klúbbsins, móðurfélags Nova. Hinu nýja félagi, Nova innviðir, er ætlað að styrkja stöðu Nova sem leiðandi aðila á íslenskum fjarskiptamarkaði.

„Ein mikilvægasta stoðin í okkar rekstri er að eiga og reka okkar eigin innviði. Þannig höldum við forskoti okkar á markaðnum og getum alltaf boðið besta og öruggasta net- og símasamband sem í boði er og staðið við loforð okkar um að vera fyrst inn í framtíðina með snjallari lausnir. Þessi aðgreining þjónustu- og innviðreksturs gefur okkur ný tækifæri sem við erum sannfærð um að muni bæði skila hagræði og betri þjónustu út um allt land fyrir viðskiptavini,“ segir Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova.

Þá skapist tækifæri til hagræðingar með enn meiri samnýtingu, m.a. á vettvangi Sendafélagsins sem er í jafnri eigu Nova og Sýn og sér um rekstur farnets félaganna. Á markaðsdegi Sýnar síðastliðinn nóvember var einnig minnst á mögulegri frekari samnýtingu innviða með Nova í gegnum Sendafélagið.

Hvað starfsemi ársins varðar segir Margrét sérstaklega ánægjulegt að sjá verulega fjölgun viðskiptavina á fastneti og á fyrirtækjamarkaði, bæði í hefðbundinni þjónustu og í sérlausnum. Þá hafi Nova verið efst í Íslensku ánægjuvoginni sextánda árið í röð og niðurstöður ársins betri en á því síðasta.

„Niðurstaðan af reglulegri starfsemi ársins 2024 er sú besta í sögu Nova. Árið og uppgjörið nú er því frábær upptaktur að því sem koma skal og vil ég segja TAKK til okkar frábæru viðskiptavina og til Nova liðsins fyrir metnaðinn, kraftinn og gleðina.“

Eigið fé móðurfélagsins nam 9.664 milljónum króna í árslok og var eiginfjárhlutfall 40,6%. Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði arður að fjárhæð 300 milljónir króna á árinu 2025. Hluthafar voru um 1700 talsins í árslok, samanborið við um 2300 í byrjun ársins. Tíu stærstu hluthafarnir fara samanlagt með 65,15% hlut.