Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í vikunni fór samruni Aurora Acquisition Corp., sérhæfðs yfirtökufélags (e. SPAC) Björgólfs Thors Björgólfssonar, og bandaríska húsnæðislánafyrirtækisins Better Mortgage loks í gegn fyrir tveimur vikum. Hluta­bréf sam­einaðs lækkuðu um 93% á fyrsta degi við­skipta og hafa haldið áfram að falla síðustu daga.

Novator Capital, félag Björgólfs Thors, var aðalbakhjarl Aurora. Í kjölfar samrunans á fjárfestingarfélagið yfir 6% hlut í Better.

Novator Capital virðist eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst vera hálfgert systurfélag hins betur þekkta Novator Partners, sem Björgólfur Thor stofnaði árið 2004,. Björgólfur Thor setti á fót Novator Capital árið 2020 ásamt Prabhu Narasimhan og Arnaud Massenet sem stýra daglegum rekstri fjárfestingarfélagsins.

Íslenski auðjöfurinn fer þó fyrir félaginu og má fastlega gera ráð fyrir að hann sé aðaleigandi þess. Í fjárfestakynningu frá maí 2021 segir að Novator Capital sérhæfi sig í fjármagnsmörkuðum og fjárfestingum í óskráðum félögum skömmu fyrir skráningar.

Áhersla á gervigreind og öfluga stofnendur

Þegar tilkynnt var um að samruni Better og Aurora væri genginn í gegn kom fram að nafni Novator Capital hafi verið breytt í NaMa Capital. Á nýrri heimasíðu segist fjárfestingarfélagið einblína á fjárfestingar í fáum fjölmiðla- og tæknifélögum sem hristi upp í sínum geira, nýti gervigreind í sínum störfum og séu leidd af öflugum stofnendum.

Níu félög eru skráð undir eignasafn NaMa Capital en þar af má telja Better og DNEG, sem sérhæfir sig í tæknibrellum og tölvugrafík, sem lykilfjárfestingar.

NaMA, sem hét þá Novator Capital, eignaðist 15% hlut í DNEG við 250 milljóna dala fjárfestingu árið 2021, eða sem nam þá um 31 milljarði króna, og Björgólfur Thor tók sæti í stjórn tæknibrellufélagsins.

Í ársbyrjun 2022 tilkynnti DNEG samkomulag um SPAC-skráningu en nokkrum mánuðum síðar var hætt við þau áform vegna óhagstæðra markaðsaðstæðna fyrir sérhæfð yfirtökufélög.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun um Better og Aurora í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær. Þar er ítarlega fjallað um fjárfestingu Novator Capital í Better.