Heimsfaraldurinn hafði ekki teljandi neikvæð áhrif á rekstur Markarinnar lögmannsstofu sem hagnaðist um 122 milljónir króna í fyrra sem er það mesta í fjögur ár.
„Við skiptum okkur upp og gátum tekið fundi yfir netið með hjálp Teams og fleiri fjarskiptalausna,“ segir Helena Erlingsdóttir framkvæmdastjóri. Markarinnar gekk hins vegar ágætlega að fjarfunda auk þess sem önnur stafræn fjarskipti sem fyrir faraldur höfðu þegar tekið við af eldri tækni og verklagi komu að góðum notum.
„Þeim nýju aðferðum sem innleiddar voru af nauðsyn á meðan faraldurinn geisaði hefur svo að miklu leyti verið haldið við og þær fest sig í sessi þótt ekki sé sama þörf fyrir þær lengur. Í dag tekur fólk fjarfundi þegar það hentar og nýtir sér fleira sem það tileinkaði sér á þessum tíma,“ segir hún og bætir við að rafrænar undirskriftir muni einnig einfalda vinnu stéttarinnar, og séu raunar þegar byrjaðar á því.
Verkefnin breytast en alltaf nóg að gera
Helena segir þau verkefni sem stofan sinnir ekki hafa breyst að ráði í faraldrinum, ef undan séu skilin dómsmál sem vörðuðu afleiðingar hans með beinum hætti. „En hvað eðli verkefnanna sem slíkra varðar var það ekkert sem hönd er á festandi.“
Hins vegar segir hún eðli verkefna lögmanna töluvert breytilegt eftir því hvernig árar í atvinnulífinu. „Fyrir hrun var mikið um samningagerð, yfirtökur og fleira sem tengist stækkun fyrirtækja í örum vexti. Svo kemur hrunið og þá verður áherslan allt önnur. Verkefnin breytast, en það er alltaf nóg að gera.“
Helena segir þau verkefni sem algengust séu í dag frekar benda til þess að góður gangur sé í atvinnulífinu. „Ég myndi segja það, klárlega. Það er töluvert meira um uppgangsverkefni en þau sem maður tengir helst við hallæri.“
Viðtalið birtist í lengri útgáfu í sérblaðinu Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, sem fylgdi Viðskiptablaðinu í síðustu viku. Blaðið er opið öllum og hægt er að nálgast það hér.