Augnlyfjaþróunarfélagið Oculis hefur tilkynnt um svokallaða PIPE-fjármögnun upp á um 80 milljónir dala, eða sem nemur 11,5 milljörðum króna, samhliða fyrirhugaðri skráningu í bandarísku Nasdaq-kauphöllina í gegnum samruna við sérhæfða yfirtökufélagið (e.SPAC) European Biotech Acquisition Corp („EBAC“). Greint er frá þessu á heimasíðu Arctica Finance sem var ráðgjafi EBAC í tengslum við fjárfestingu íslenskra aðila í PIPE fjármögnuninni.
Gert er ráð fyrir að þegar sameining Oculis og EBAC hefur að fullu gengið í gegn, sem ráðgert er að verði á fyrri hluta árs 2023, muni heildarvirði (e. enterprise value) Oculis nema um 220 milljónum dala, eða um 31,6 milljarða króna, og félagið með sjóðstöðu yfir 200 milljónum dala, að því gefnu að engar innlausnir verði í EBAC.
Oculis var stofnað af Einari Stefánssyni, prófessor í augnlækningum og Þorsteini Loftssyni, prófessor í lyfjafræði. Tækni Oculis byggir á nanóögnum, gerðum úr sýklódextrín-sameindum, sem nýttar eru til að auka leysanleika augnlyfja og gefa lengri virkni.
Það lyf sem lengst er komið í þróun hjá Oculis, OCS-01, byggir á einkaleyfavarinni tækni, sem gerir mögulegt að meðhöndla sjúkdóma í afturhluta augans með augndropum. OCS-01 er í dag í alþjóðlegum fasa 3 klínískum prófunum til meðhöndlunar á sjónhimnubjúg í sykursýki og gæti orðið fyrsta lyfið í formi augndropa til meðhöndlunar á sjúkdóm í afturhluta augans.
Fyrsta vísisfjármögnun Oculis fór fram árið 2016 og var leidd af Brunni vaxtarsjóði og Silfurbergi. Í árslok 2017 urðu vatnaskil í starfsemi Oculis þegar þrír erlendir vísisjóðir komu að félaginu. Í kjölfar þess var sett upp móðurfélag og höfuðstöðvar í Sviss. Frekari vísifjármagnanir hafa fylgt og hefur Oculis til dagsins í dag samtals sótt um 110 milljónir dala, eða um 16 milljarða króna, í fjármagn til rannsóknar og þróunar nýrra augnlyfja.
Skilar Oculis allt að 29 milljörðum
Gert er ráð fyrir að sameiningin við EBAC geti skilað Oculis yfir 200 milljónum dala, eða nærri 29 milljörðum króna, ef gert er ráð fyrir engum innlausnum. Þetta felur í sér 127,5 milljóna dala innspýtingu reiðufjár sem kemur úr sjóðum EBAC (ef gert er ráð fyrir engum innlaunum) og tæpar 80 milljónir dala með lokuðu hlutafjárútboði (PIPE-fjármögnun), þar af um fjórðungur frá íslenskum fjárfestum sem samanstanda af lífeyrissjóðum, verðbréfasjóðum, tryggingafélögum og öðrum fjárfestingarfélögum.
Meðal kjölfestufjárfesta í PIPE-fjármögnuninni eru LSP 7, einn stærsti líftæknisjóður Evrópu, Earlybird, Novartis Venture Fund, Pivotal bioVenture Partners, Tekla Capital Management LLC og VI Partners, meðal annarra.
Arctica Finance var ráðgjafi EBAC í tengslum við fjárfestingu íslenskra aðila í PIPE fjármögnuninni, en aðrir ráðgjafar voru Bank of America, SVB Securities, Credit Suiss og Kempen. Lögfræðiráðgjafar í tengslum við viðskiptin voru Cooley (UK) LLP, VISCHER SA, SA. Davis Polk & Wardwell LLP, Stibbe N.V., Maples Group, Shearman & Sterling LLP og BBA//Fjeldco.