Íbúðaverð hefur hækkað mikið um allan heim frá byrjun árs 2020. Í kjölfar vaxtahækkana hjá seðlabönkum heimsins og minnkandi eftirspurnar virðist leiðrétting þegar farin að eiga sér stað. Í Noregi hefur vísitala húsnæðisverðs lækkað um 2% að raunvirði frá því í maí og í Svíþjóð hefur íbúðaverð lækkað um 14,5% að raunvirði frá því í febrúar, eða 8,7% að nafnvirði.
Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur hjá Íslandsbanka, segir þó að umhverfið sé öðruvísi hér á landi.
„Íbúðamarkaðurinn í þeim löndum sem við berum okkur saman við hefur kólnað hraðar en hér. Það er öðruvísi umhverfi hér á landi, við erum að fást við mikinn framboðsskort sem hefur ekki verið í hinum löndunum. Fólksfjölgunin er líka meiri hér, þar á meðal erlent vinnuafl sem kemur hingað meðal annars til að byggja íbúðir. Við erum líka með spenntan vinnumarkað og er útlit fyrir launahækkanir nú þegar kjarasamningar losna. Allir þessir þættir hafa áhrif á þróun íbúðamarkaðarins.“
Bergþóra bendir á að í Svíþjóð og öðrum löndum í Evrópusambandinu séu vextir að hækka, sem þekkist varla. „Þessi ríki eru vön mjög lágu vaxtastigi. Fólk þekkir þetta ekki og þetta fælir frá.“
Hún bætir við að á Íslandi hafa vextir vissulega hækkað en að við séum alvön háu vaxtaumhverfi og að vextir séu enn tiltölulega lágir miðað við það sem við þekkjum. Þess fyrir utan hafi íbúðaverð í Stokkhólmi, höfuðborg Svíþjóðar, nú þegar verið mjög hátt fyrir faraldur, mun hærra hlutfallslega en á Íslandi.
„Í Svíþjóð var komin upp sú staða að það þurfti einhver leiðrétting að eiga sér stað, verð þurfti að lækka til að fólk gæti hreinlega haft efni á því að kaupa sér fasteign. Það er ekki hægt að segja að staðan sé orðin þannig hérlendis. Hér eru enn mjög fáar eignir á sölu, þótt þeim sé aðeins að fjölga og ofan á það er eftirspurnin enn til staðar. Okkur finnst ólíklegt að íbúðaverð sé að fara að lækka um 8-9% að nafnvirði eins og hefur gerst í Svíþjóð.“
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.