Greint var frá því á föstudaginn að Kaupfélag Skagfirðinga (KS) og Árni Pétur Jónsson, hefðu náð samkomulagi um kaup á Gleðipinnum og eignast þar með veitingastaðina American Style, Aktu Taktu, Hamborgarafabrikkan, Shake & Pizza og Blackbox ásamt Keiluhöllinni og Rush trampólíngarðinum.

„Ég veit þá hvert ég er ekki að fara með fjölskylduna að fá mér að snæða,“ skrifar Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda (FA) í færslu á Facebook í morgun.

Ólafur gagnrýnir að „einn af æðstu stjórnendum“ Kaupfélags Skagfirðinga beri nafnbótina heiðurskonsúll Rússlands á Íslandi. Hann vísar þar til Ólafs Ágústs Andréssonar, forstöðumanns kjötafurðastöðvar KS, sem varð kjörræðismaður Rússlands á Íslandi árið 2014.

„[Ólafur Ágúst] sagðist í viðtölum síðastliðið vor „ekki einu sinni [hafa] hugleitt það“ að segja af sér þessari heiðursnafnbót eftir að ríkið sem veitti honum hana hafði orðið uppvíst að skelfilegum stríðsglæpum í Úkraínu,“ skrifar Ólafur Stephensen.

Hann hefur verið mjög gagnrýninn á afskiptaleysi þegar kemur að Rússlandi. Ólafur gagnrýndi íslensk stjórnöld í apríl fyrir að vísa ekki rússneska sendiherranum úr landi. Einnig furðaði hann sig á íslenskum fyrirtækjum sem áttu enn viðskiptum í Rússlandi í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu.