Nýr kafli í tollasögu Donalds Trump Bandaríkjaforseta er hafinn. Fyrir helgi tilkynnti hann um tolla gagnvart helstu viðskiptaríkjunum. Samkvæmt forsetatilskipuninni sem tók gildi á fimmtudaginn verða almennt lagðir 15% tollar á íslenskar vörur en ekki 10% eins og búist hafði verið við.
Íslensk stjórnvöld hafa óskað eftir fundi með þeim bandarísku en hafa ekki fengið svar. Hafsteinn Hauksson, aðalhagfræðingur Kviku banka, segir að ákvörðunin hafi ekki átt að koma á óvart. Flestir séu farnir að vænta hins óvænta í samskiptum bandarískra stjórnvalda við vinaþjóðir sínar.
Spurður hvaða þýðingu þetta hafi fyrir íslensk fyrirtæki sem flytji vörur til Bandaríkjanna svarar Hafsteinn:
„Þetta eru ekki risavaxnar upphæðir í samhengi við stærð íslenska hagkerfisins. Lyf og ákveðin lækningatæki eru enn sem komið er undanþegin 15% tollinum, svo það eru helst sjávarútvegs- og eldisfyrirtæki sem munu verða fyrir tollunum, en útflutningur þeirra til Bandaríkjanna nam tæplega 50 milljörðum síðustu 12 mánuði, eða rétt um 1% landsframleiðslu.
Það er því ólíklegt að tollarnir setji hagkerfið á hliðina – en þetta eru auðvitað ekki góðar fréttir fyrir fyrirtækin sem þarna eiga í hlut, sérstaklega ofan í veikingu Bandaríkjadals frá áramótum.“
Hafsteinn segir það hjálpa til að fyrirtækin hafi forskot vegna nálægðar við Bandaríkin, sem skiptir máli við útflutning ferskvöru, og búa að auki að einhverju besta sölustarfi sem fyrirfinnst á Íslandi.
„Þau munu reyna að milda rekstrarskaðann sem tollarnir valda eins og kostur er, en það er líklegt að þeir hafi einhvern tekjumissi í för með sér. Það verður dýrara en áður fyrir bandaríska innflytjendur að kaupa inn vörur frá Íslandi, svo þetta getur sett þrýsting á bæði verð og selt magn hjá þeim fyrirtækjum, sem einkum flytja út til Bandaríkjanna.“
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast greinina í heild sinni hér og annað efni úr blaðinu hér.