Vodafone tilkynnti í dag að fyrirtækið mun héðan í frá bjóða upp á rafræna SIM-kortaþjónustu fyrir viðskiptavini sína sem nefnist eSIM. Með aðkomu Vodafone er eSIM kortaþjónustan nú í boði hjá öllum stærstu símafyrirtækjum Íslands.

Rafræna eSIM þjónustan er ný tegund símakorta sem innbyggð eru í samskiptatækjunum. Ólíkt hinum hefðbundnu kortum þarf ekki að setja eSIM kortin sjálf inn í tækin. Eitt símanúmer er tengt við öll tæki og geta notendur skipt á milli símanúmera að vild.

Nova var fyrsta íslenska fjarskiptafyrirtækið á Íslandi til að bjóða upp á eSIM þjónustu í úr í nóvember 2020. „Það var gert með eftirminnilegum hætti með auglýsingaherferðinni ALLIR ÚR! Þar sögðum við að úrið og úrlausnin var allt sem þarf, eins og að rata um bæinn, borga út í búð og taka á móti símtölum. Þú getur gert allt þetta og síminn er víðs fjarri,“ segir Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova.

Í tilkynningu frá Vodafone segir að eSIM kortin séu tilvalin fyrir þá sem vilji hafa einkanúmer og vinnunúmer í sama símanum eða úrinu. Innbyggðu eSIM kortin eru einnig talin umhverfisvænni en hefðbundin símakort og má því búast við að kortin verði algengari í framtíðinni.

„Það hefur verið mikil spenna eftir eSIM og því afar ánægjulegt fyrir okkur að kynna að nú geta viðskiptavinir notað lausnina í þeim tækjum sem að styðja lausnina. Með eSIM er einungis hægt að vera með rafræn skilríki í gegnum Auðkennisappið en fyrirtæki og stofnanir eru í auknum mæli að vinna við að styðja auðkenningu með eSIM,“ segir Sesselía Birgisdóttir framkvæmdastjóri Vodafone.