Samkeppniseftirlitið hefur heimilað samruna upp­lýsinga­tækni­fyrir­tækjanna Opinna kerfa og Premis. Tilkynnt var um samrunann stuttu í kjölfar kaupa framtakssjóðsins VEX I á Opnum kerfum. Þá kom fram að samanlögð velta félaganna í fyrra hafi verið rúmlega fimm milljarðar króna og EBITDA tæplega 300 milljónir.

Í samrunaskrá segir að VEX I og Opin kerfi hafi skuldbundið sig til að kaupa allt hlutafé í Premis. Eftir kaupin verður Premis dótturfélag Opinna Kerfa. Á móti skuldbundu hluthafar Premis sig til að kaupa hluti í Opnum kerfum.

Eigendur Premis fyrir viðskiptin voru fjárfestingafélagið Fiskisund, sem er stærsti hluthafi Play, með 40% hlut og Eskimo Rental, í eigu Kristins Elvars Arnarssonar, forstjóra Premis, og Arnar Kristinssonar, með 40%. Auk þess fara félög á vegum Péturs Inga Björnssonar, tæknistjóra Premis, og Sigurðar Pálssonar, forstjóra Fjölnets sem sameinaðist Premis fyrir ári, með sitthvorn 10% hlut í Premis.

Fram kemur að fyrir lúkningu viðskiptanna mun tilteknum lánum Premis verða breytt í hlutafé sem mun breyta eignarhlutföllum lítillega og Nolt ehf., sem er í eigu Kára Þórs Guðjónssonar, hluthafa Fiskisunds, mun einnig verða skráður fyrir hlutum í Premis.

Stærstu eigendur VEX I eru lífeyrissjóðirnir LIVE, LSR, Almenni og Stapi ásamt VÍS. Eina eign VEX I fyrir kaupin á Opnum kerfum var 40% eignarhlutur í hugbúnaðarfyrirtækinu AGR Dynamics.

Sameiginlegt félag með undir 20% hlutdeild

Að mati Opinna kerfa og Premis nær samruninn fyrst og fremst til upplýsingatæknimarkaðar og þeirra markaða sem samrunaaðilar starfa á innan hans, einkum markaðar fyrir hýsingu- og rekstrarþjónustu tölvukerfa og markaðar fyrir sölu á vél- og hugbúnaði til fyrirtækja. Í samrunaskrá segir að þjónustu samrunaaðila skarist einkum á markaði fyri hýsingar- og rekstrarþjónustu.

Hlutdeild stærstu aðila á markaði fyrir hýsingar- og rekstrarþjónustu tölvukerfa miðað við veltu árið 2020, samkvæmt mati samrunaaðila:

  • Advania [40-45%]
  • Origo [30- 35%]
  • Sensa [10-15%]
  • Opin kerfi og Premis [5-10%]

Hlutdeild á markaði fyrir sölu á vél- og hugbúnaði til fyrirtækja, að mati samrunaaðila:

  • Origo [45-50%]
  • Advania [15-20%]
  • Opin kerfi og Premis [15-20%]
  • Endor [5-10%]
  • Sensa [5-10%]

Samkeppniseftirlitið leit svo á að samanlögð markaðshlutdeild Opinna kerfa og Premis á framangreindum mörkuðum og sú samþjöppun sem af samrunanum leiðir gefi ekki tilefni til að telja samrunaaðila markaðsráðandi, eða að samkeppni verði raskað að öðru leyti með umtalsverðum hætti.

Gagnrýna eigendastefnu lífeyrissjóða og Origo andmælir veltutölum

Samkeppniseftirlitinu bárust samtals fimm umsagnir er vörðuðu samrunann en enginn þeirra lagðist gegn samrunanum með beinum hætti.

Fram kemur að gerð var athugasemd við stefnu eigenda fjárfestingarsjóðsins VEX I „þar sem að fjármagnið á bak við sjóðinn er að mestu úr lífeyrissjóðskerfinu en dregið geti úr að samkeppnisaðilar hvetji starfsfólk til að greiða í lífeyrissjóði sem kaupa upp samkeppni á markaði“.

Origo andmælti veltutölum samkvæmt samrunaskránni sem þeir telja vera rangar. Jafnframt gerði Origo athugasemd við markaðsskilgreiningar samkvæmt samrunaskránni og að vél- og hugbúnaðarsala ætti að skilgreina sem aðgreinda markaði. Markaðirnir séu ólíkir, með ólíkum samkeppnisaðilum og tengist ákaflega lítið, að mati Origo.

Landfræðileg skilgreining úrelt að mati Advania

Samrunaaðilar töldu Ísland vera landfræðilegan markað málsins en tóku þó fram að vörur og þjónusta sem þeir veita einskorðist ekki við Ísland og erlendir aðilar veit umtalsvert samkeppnislegt aðhald. Í umsögn Advania um samrunann var gerð athugasemd við markaðsskilgreiningar á Íslandi sem landfræðilegum markaði málsins. Advania segir að upplýsingatæknimarkaður sé orðin mun alþjóðlegri en áður var og að auknar kröfur viðskiptavina gerðu það að verkum að sífellt erfiðara væri að keppa við stærri alþjóðleg félög.

„Taldi Advania því að hin landfræðilega skilgreining upplýsingatæknimarkaðarins væri úrelt. Advania lítur svo á að með sameiningu Opinna kerfa og Premis verði til öflugur aðili á markaðnum sem muni vonandi hafa styrk til að keppa á alþjóðlegum markaði,“ segir í ákvörðun SKE. Eftirlitið taldi ekki þörf á að taka end

Að mati Samkeppniseftirlitsins eru vísbendingar um að landfræðilegur markaður málsins sé Ísland en í ljósi þess að það hefur ekki áhrif á niðurstöðu málsins taldi eftirlitið ekki þörf á því að taka endanlega afstöðu til afmörkun landfræðilegs markaðar málsins.