Úrvalsvísitalan lækkaði lítillega í 3,8 milljarða króna viðskiptum í dag. Mesta veltan var með hlutabréf Marels sem hækkuðu um 0,2% í eins milljarðs króna viðskiptum. Gengi Marels stendur nú í 444 krónum.
Origo hækkaði mest af félögum aðalmarkaðarins, eða um 3%, í 71 milljónar viðskiptum. Gengi upplýsingatæknifyrirtækisins hefur hækkað um 11% á einni viku og stendur nú í 70 krónum á hlut. Hlutabréf Iceland Seafood og Eimskips hækkuðu einnig um 1% en þó í lítilli veltu.
Sýn lækkaði um 2,5%, mest af félögum Kauphallarinnar, en velta með bréf fjölmiðla- og fjarskiptafélagsins nam þó aðeins 18 milljónum. Gengi Sýnar stendur í 57,5 krónum og hefur lækkað um 18% frá því um miðjan ágúst síðastliðinn.