Verðskrá Orkusölunnar hækkar um 23,2% í ár sam­kvæmt til­kynningu á heimasíðu fyrir­tækisins.

Orku­salan greinir frá því að verðhækkunin sé til samræmis við markaðsaðstæður, verðlagsþróun og hækkun Lands­virkjunar. Þjónustu­gjöld hækka um 4,2%.

Í Við­skipta­blaðinu fyrir áramót var greint frá hækkuninni en inn­lendir mat­væla­fram­leiðendur hafa sagt að hærra orku­verð muni lík­legast skila sér út í verðlag í ár.

„Sala á raf­orku til okkar er að hækka um 20-25% um áramótin. Þar sem við notum mikið raf­magn er þetta um­tals­verð upp­hæð fyrir okkur,“ sagði Kristján Theodórs­son, fram­kvæmda­stjóri Myllunnar-Ora, í sam­tali við Við­skipta­blaðið.

Hann bætti við að fyrir­tækið hafi aldrei fengið álíka mikla hækkun á raf­magns­verði á sitt borð.

Myllan-Ora ehf. hét áður ÍSAM ehf., en félagið á og rekur mat­vöru­fram­leiðslu undir merkjum Myllunnar, Kexsmiðjunnar, Fróns og Ora. Var félaginu skipt upp fyrir þremur árum og er ÍSAM (heild­sala) nú hluti af Ó. Johns­son & Kaaber – ÍSAM ehf.

Aðrir inn­lendir mat­væla­fram­leiðendur hafa lýst svipaðri stöðu á undan­förnum misserum.

Axel Sæ­land, for­maður græn­metis­bænda hjá Bænda­samtökum Ís­lands, sagði í viðtali hjá Ríkisút­varpinu á dögunum að vegna fjórðungs­hækkunar raf­orku til garðyrkju­bænda gæti verð á ís­lensku græn­meti hækkað um allt að 12% um áramótin.

Sam­kvæmt Hag­stofunni hefur raf­magns­verð hækkað um 13,2% á síðustu tólf mánuðum.

Á sama tíma hefur vísi­tala neyslu­verðs hækkað um 4,8% og hefur raun­verð raf­orku því hækkað um 8,4% á síðustu tólf mánuðum. Raf­magns­verð hefur ekki hækkað jafn mikið á árs­grund­velli síðan 2011, eða í 13 ár.

Í greiningu Samtaka iðnaðarins segir að raforkuframleiðsla hafi ekki haldið í við vöxt og viðgang samfélagsins, þar á meðal fólksfjölgun. Kyrrstaða í raforkuöflun á síðastliðnum 10-15 árum hafi leitt til umræddra raforkuverðshækkana.

Þættir eins og skortur á uppbyggingu á nauðsynlegum innviðum í raforkukerfinu, léleg vatnsár og flutningstakmarkanir í fulllestuðu raforkukerfi spili þar stórt hlutverk.