Ørsted, stærsta orkufyrirtæki Danmerkur, greindi frá því í morgun að félagið væri að selja um helming eignarhluta sinna í þremur sólarorkugörðum í Bandaríkjunum.
Samkvæmt danska viðskiptamiðlinum Børsen er kaupandi fjárfestingafyrirtækið Energy Capital Partners en félagið eignast um 50% hlut í sólarorkugörðunum þremur eftir viðskiptin.
Kaupverðið er 4,1 milljarður danskra króna sem samsvarar um 79,5 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins.
Ørsted á áfram 50% hlut og mun sjá um rekstur á sólarorkugörðunum en um er að ræða sólarorkugarðinn Mockingbird og Sparta í Texas og Eleven Mile Solar Center í Arizona.
Síðasta haust þurfti Ørsted að afskrifa 26,8 milljarða danskra króna eða um 546 milljarða íslenskra króna eftir að vindmylluverkefni fyrirtækisins í Bandaríkjunum fór forgörðum.
Fjárfestar voru að vonast eftir meiri ró yfir rekstri félagsins í ár en fyrirtækið þurfti að afskrifa 3,9 milljarða danskra króna eða um 79 milljarða íslenskra króna á gengi dagsins á öðrum ársfjórðungi.
Tap félagsins á fyrri helmingi ársins nam 1,7 milljörðum danskra króna. Ørsted seldi fagfjárfestum hluti í vindmylluverkefnunum fyrr á árinu og stendur eignarhlutur félagsins í verkefnunum fjórum í 37,55% eftir viðskiptin við Brookfield.
Í október var greint frá því að Ørsted væri að selja eignarhluti í vindmylluverkefnum sínum við strendur Bretlandseyja vegna fyrrgreindra vandræða.
Ørsted seldi kanadíska fjárfestingafélaginu Brookfield um 12,45% hlut í fjórum vindmylluverkefnum á tæpa 16 milljarða danskra króna sem samsvarar um 318 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins.
Um er að ræða verkefnin Hornsea 1, Hornsea 2, Walney Extension and Burbo Bank Extension sem sameiginlega framleiða um 3,5 gígawött af orku en félögin fjögur eru öll skráð í Bretlandi.