Ørsted, stærsta orku­fyrir­tæki Dan­merkur, greindi frá því í morgun að félagið væri að selja um helming eignar­hluta sinna í þremur sólar­orkugörðum í Bandaríkjunum.

Sam­kvæmt danska við­skipta­miðlinum Børsen er kaupandi fjár­festinga­fyrir­tækið Ener­gy Capi­tal Partners en félagið eignast um 50% hlut í sólar­orkugörðunum þremur eftir við­skiptin.

Kaup­verðið er 4,1 milljarður danskra króna sem sam­svarar um 79,5 milljörðum ís­lenskra króna á gengi dagsins.

Ørsted á áfram 50% hlut og mun sjá um rekstur á sólar­orkugörðunum en um er að ræða sólar­orkugarðinn Mocking­bird og Sparta í Texas og Ele­ven Mile Solar Center í Arizona.

Síðasta haust þurfti Ørsted að af­skrifa 26,8 milljarða danskra króna eða um 546 milljarða ís­lenskra króna eftir að vind­myllu­verk­efni fyrir­tækisins í Bandaríkjunum fór for­görðum.

Fjár­festar voru að vonast eftir meiri ró yfir rekstri félagsins í ár en fyrir­tækið þurfti að af­skrifa 3,9 milljarða danskra króna eða um 79 milljarða ís­lenskra króna á gengi dagsins á öðrum árs­fjórðungi.

Tap félagsins á fyrri helmingi ársins nam 1,7 milljörðum danskra króna. Ørsted seldi fag­fjár­festum hluti í vind­myllu­verk­efnunum fyrr á árinu og stendur eignar­hlutur félagsins í verk­efnunum fjórum í 37,55% eftir við­skiptin við Brook­field.

Í október var greint frá því að Ørsted væri að selja eignar­hluti í vind­myllu­verk­efnum sínum við strendur Bret­lands­eyja vegna fyrr­greindra vand­ræða.

Ørsted seldi kana­díska fjár­festingafélaginu Brook­field um 12,45% hlut í fjórum vind­myllu­verk­efnum á tæpa 16 milljarða danskra króna sem sam­svarar um 318 milljörðum ís­lenskra króna á gengi dagsins.

Um er að ræða verk­efnin Horn­sea 1, Horn­sea 2, Wal­n­ey Extension and Burbo Bank Extension sem sam­eigin­lega fram­leiða um 3,5 gígawött af orku en félögin fjögur eru öll skráð í Bret­landi.