Lífskjarasamningarnir renna út eftir rúmar þrjár vikur, eða þann 1. nóvember. Viðræður eru hafnar á milli Samtaka atvinnulífsins annars vegar og VR, samflots iðnaðarmanna og Starfsgreinasambandsins að frádregnu Eflingu stéttarfélagi og Stéttarfélagi Vesturlands.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði í gær, á fundi peningastefnunefndar, að baráttan við verðbólguna væri sameiginlegt verkefni Seðlabankans, atvinnulífs, vinnumarkaðar og stjórnvalda, og sendi um leið boltann á fyrrnefnda aðila.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, tekur undir orð seðlabankastjóra. „Á meðan trúverðugleiki Seðlabankans er jafn mikill og raun ber vitni þá væri það glapræði fyrir aðila á vinnumarkaði að hlusta ekki á viðvörunarorð seðlabankastjóra og peningastefnunefndar. Ef vinnumarkaðurinn eða ríkisfjármálin fara framhjá sér þá mun Seðlabankinn grípa til vaxtahækkana,“ sagði Halldór í samtali við Viðskiptablaðið.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir ljóst að umfang verðbólgunnar verði sótt í launahækkunum. „Kostnaðurinn við að lifa hefur hækkað mikið upp á síðkastið og þessum kostnaði þarf að velta út í okkar verðlag sem eru launin.“ Spurður út í skammtímasamninga segist Ragnar skoða alla möguleika. „Krafa okkar félagsmanna hefur alltaf verið langtímasamningar. Gallinn við styttri samninga eru minnkandi líkur á stærri kerfisbreytingum.“
Þessi frétt er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.