Heimsmarkaðsverð á áli var í lok ágúst um 11% hærra en á sama tíma í fyrra. Miklar verðsveiflur urðu á áli í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu en dregið hefur úr þeim á síðustu misserum.
Samkvæmt Fjármálastöðugleikariti Seðlabanka Íslands virðast þó horfur um verð á áli góðar um þessar mundir.
Hins vegar hafði raforkuskerðing til stórnotenda hér á landi þau áhrif á álframleiðslu á fyrri helmingi ársins en hún dróst þá saman um 6,5% frá sama tíma í fyrra og samkvæmt nýjustu þjóðhagsspá Seðlabankans er gert ráð fyrir samdrætti á árinu í heild.
„Óvissa er um álframleiðslu á næstu mánuðum ekki síst vegna mögulegrar skerðingar á afhendingu orku frá Landsvirkjun í vetur,”segir í Fjármálastöðugleika.
Samkvæmt skýrslu Landsnets um kerfisjöfnuð í vor eru auknar líkur á skerðingum á raforku til ársins 2028 en Landsnet metur stöðu framboðs, notkunar og mögulega veikleika í framtíðarraforkukerfinu.
Landsnet sagði í vor að flókin staða verði uppi næstu 12-18 mánuði þar sem vísbendingar eru um að forði uppistöðulóna muni verða nokkurn tímann að rétta úr kútnum eftir óvenjulega þurrt tímabil 2023-2024.
Ofan á það bætist að enn eru nokkur ár í að samtenging flutningskerfis náist á milli landshluta.
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, sagði um svipað leyti þetta vera mikið áhyggjuefni ef horft er lengra fram í tímann þar sem orka leikur lykilhlutverk í öflun útflutningstekna, með bæði beinum eða óbeinum hætti, og hefur því áhrif á hagvöxt
„Kannski þurfa á endanum að raungerast fyrir alvöru áhrifin af þessu til að auka skilning á að þetta skiptir máli. Að við höfum krossbremsað í nýrri orkuframleiðslu,” sagði Jón Bjarki í vor.