Heims­markaðs­verð á áli var í lok ágúst um 11% hærra en á sama tíma í fyrra. Miklar verð­sveiflur urðu á áli í kjöl­far inn­rásar Rússa í Úkraínu en dregið hefur úr þeim á síðustu misserum.

Sam­kvæmt Fjár­mála­stöðug­leika­riti Seðla­banka Ís­lands virðast þó horfur um verð á áli góðar um þessar mundir.

Hins vegar hafði raf­orku­skerðing til stór­not­enda hér á landi þau á­hrif á ál­fram­leiðslu á fyrri helmingi ársins en hún dróst þá saman um 6,5% frá sama tíma í fyrra og sam­kvæmt nýjustu þjóð­hags­spá Seðla­bankans er gert ráð fyrir sam­drætti á árinu í heild.

„Ó­vissa er um ál­fram­leiðslu á næstu mánuðum ekki síst vegna mögu­legrar skerðingar á af­hendingu orku frá Lands­virkjun í vetur,”segir í Fjármálastöðugleika.

Sam­kvæmt skýrslu Lands­nets um kerfis­jöfnuð í vor eru auknar líkur á skerðingum á raf­orku til ársins 2028 en Lands­net metur stöðu fram­boðs, notkunar og mögu­lega veik­leika í fram­tíðar­ra­forku­kerfinu.

Lands­net sagði í vor að flókin staða verði uppi næstu 12-18 mánuði þar sem vís­bendingar eru um að forði uppi­stöðu­lóna muni verða nokkurn tímann að rétta úr kútnum eftir ó­venju­lega þurrt tíma­bil 2023-2024.

Ofan á það bætist að enn eru nokkur ár í að sam­tenging flutnings­kerfis náist á milli lands­hluta.

Jón Bjarki Bents­son, aðal­hag­fræðingur Ís­lands­banka, sagði um svipað leyti þetta vera mikið á­hyggju­efni ef horft er lengra fram í tímann þar sem orka leikur lykil­hlut­verk í öflun út­flutnings­tekna, með bæði beinum eða ó­beinum hætti, og hefur því á­hrif á hag­vöxt

„Kannski þurfa á endanum að raun­gerast fyrir al­vöru á­hrifin af þessu til að auka skilning á að þetta skiptir máli. Að við höfum kross­bremsað í nýrri orku­fram­leiðslu,” sagði Jón Bjarki í vor.