Arinbjörn Sigurgeirsson, stofnandi vefsíðunnar textagerd.is, segir að rangt málfar sé ekki aðeins vandamál meðal ungmenna á Íslandi. Hann segir að óvönduð íslenska sé einnig vandamál hjá fólki sem vinni og komi fram í fjölmiðlum og skrifi texta.

Arinbjörn hefur fengist við texta í fjölmörgum störfum og félagslífi, unnið við prófarkalestur í mörg ár og rekur nú síðuna textagerd.is. Hann segir mörg ensk orð hafa verið tekin inn í íslenska tungumálið sem slanguryrði og séu nú í nokkuð almennri notkun.

„Ég hef oft hlustað á vandað og gott íslenskt mál, hjá vel menntuðu og reyndu fólki, en svo kemur bara allt í einu eitthvað enskt orð, eins og „basically“.

Annað dæmi er orðið „preppa“, sem Arinbjörn hefur heyrt í auglýsingum en þá er verið að tala um „preparation“, eða undirbúning. Hann nefnir einnig orð eins og „fronturinn“ og þetta „lúkkar“ vel – í stað „þetta lítur vel út“.

„Þessi og fjölmörg önnur dæmi benda til að það séu ekki aðeins nýútskrifaðir grunnskólanemar sem eigi erfitt með góða íslenskunotkun. Svo megi ætla að búið sé að ættleiða ýmis ensk orð inn í íslenskuna og jafnvel gefa þeim íslenskar endingar og beygingar, og þetta virki eins og vöðvaminni hjá fólki sem er að skrifa.“

Aðspurður um hvort þróunin geti tengst þeirri staðreynd að íslensk orð eru gjarnan mjög löng og hafi ekki sama slagkraft og ensk orð, til að mynda sé „sci-fi“ þýtt sem vísindaskáldskapur og orðið þá strax orðið mun langdregnara en enska tökuorðið?

„Það gæti verið en þá gæti jafnvel bara verið betra að sleppa því að nota orðið. Ég sé þetta reyndar í mínu nærumhverfi. Sonur minn kvartar iðulega þegar hann hjálpar okkur með vandamál í símunum okkar, því hann skilur ekki sum íslensku orðin sem notuð eru í stað ensku orðanna og finnast þau vera bæði ógegnsæ og stirð.“

Arinbjörn bætir við að margir eigi til að lengja setningar að óþörfu og skrifa til að mynda „ég er að undra mig á einhverju“ eða „ég er að halda að þetta sé svona“ í stað þess að skrifa „ég undrast“ og „ég held“. Hann telur að slíkar orðasamsetningar komi beint úr ensku.

Viðskiptavinir Arinbjarnar hafa einnig sent inn texta sem notast við enskar gæsalappir, þar sem fyrri gæsalappirnar eru fyrir ofan í stað þess að vera fyrir neðan, og oft vanti bil eftir punkti aftan við tölustaf í dagsetningu og eða að byrja mánaðarheiti í dagsetningum með stórum staf í stað lítils.

„Manni virðist sem skólakerfið og annað í umhverfi okkar nái ekki að tryggja öllum góða kunnáttu í íslenska móðurmálinu, sem er bara sorglegt miðað við allt góða fólkið sem starfar í menntakerfinu og alla peningana sem fara í það.“

Íþróttafréttir eru annar vettvangur þar sem Arinbjörn hefur rekist á skrýtið málfar en þar segja fréttamenn oft að leikmenn „setji mörk“ í stað þess að „skora mörk“. Einnig sé oft sagt að íþróttamenn hafi „hafnað í öðru eða þriðja sæti“ í stað þess að hafa „náð öðru eða þriðja sæti“.

Arinbjörn segir að einstaklingar séu mismunandi og ólíkir þegar kemur að málnotkun. Sumir séu til dæmis mjög góðir sögumenn en geti ómögulega skrifað texta og aðrir eigi líka erfitt með að tjá sig í tali. „Enginn er góður í öllu en allir eru góðir í einhverju.“

„Ég segi oft að grundvallaratriði í töluðum og skrifuðum texta er að hann skiljist, að hlustandi og lesandi nái að skilja hugsun og meiningu höfundar – því misskilningur er vondur skilningur,“ segir Arinbjörn.