Leyfi Domino‘s á Íslandi á vörumerkinu Megavika rann út í fyrra. Þar sem Domino‘s sótti ekki um endurnýjun á tilsettum tíma þá barst Hugverkastofu umsókn um einkaleyfi frá öðrum aðila, Kjútís ehf. Umrætt félag er í eigu Ólafs Friðriks Ólafssonar, eiganda Pizzunnar, eins helsta keppinautar Domino’s.
Magnús Hafliðason, forstjóri Domino‘s á Íslandi, segir að fyrirtækinu hafi ekki borist tilkynning um að skráningin, sem er til tíu ára í senn, væri að renna út. Ekkert bréf hafi borist frá Hugverkastofu, hvorki í bréfpósti né í gegnum Ísland.is. Þess í stað hafi verið sendur tölvupóstur á starfsmann sem var löngu hættur.
„Okkur finnst mjög sérstakt að tilkynningarferlið sé með þessum hætti þegar aðrar og betri leiðir eru til staðar. Það breytir þó ekki því að við hefðum átt að vera með þetta betur skráð okkar megin. Við teljum þrátt fyrir það að vörumerkjaréttur okkar sé vel tryggður með notkun okkar á vörumerkinu sem ekki er hægt að vefengja,“ segir Magnús.
Aðspurður segir Magnús það ekki hafa komið sér á óvart að eigandi Pizzunnar hafi reynt að tryggja sér vörumerki sem Domino‘s hefur verið með skráð frá 2003 og hefur notað í markaðsstarfi frá 2000.
„Umsækjandinn er einkahlutafélag sem er skráð sem heildverslun samkvæmt fyrirtækjaskrá en að baki því er forsvarsmaður Pizzunnar. Ég get ekki sagt að það hafi komið á óvart enda ekki í fyrsta skipti sem aðilar á markaðnum herma eftir okkur, hvort sem það sé í markaðsmálum eða í vöruþróun.
Það verður þó að segjast að þarna finnst manni heldur lágt lagst í samkeppninni þegar reynt er að koma höndum yfir hugmyndir og vörumerki annarra aðila í stað þess að koma með eigin hugmyndir eða vörur á markað. Ég hugsa að almenningur myndi ekki taka vel í slíka snúninga enda veit hvert mannsbarn hér á landi hver byrjaði með, byggði upp og hefur notað vörumerkið Megavika.
Aðalmálið er það að við höfum áfram haldið vörumerkinu við með notkun og fjárfestingu án tillits til skráningarinnar og þannig varið og tryggt vörumerkjarétt okkar.“
Starfsmenn Hugverkastofu vötku athygli á málinu
Tveir starfsmenn Hugverkastofu vöktu athygli á málinu í gær í hlaðvarpsþættinum Dr. Football með Hjörvari Hafliðasyni. Jóhann Skúli Jónsson, hlaðvarpsstjórnandi Draumaliðsins og lögfræðingur hjá Hugverkastofu, og Pétur Vilhjálmsson, stafrænn leiðtogi hjá Hugverkastofu, voru gestir Hjörvars.
Umræðuefni þáttarins var vörumerki og á einum tíma bað Hjörvar Hafliðason gestina um að gefa dæmi um fyrirtæki sem höfðu tapað á því að hafa ekki skráð vörumerki sitt.
Jóhann Skúli nefndi McDonald‘s í Frakklandi sem missti nýlega vörumerkið Big Mac og er því hamborgarinn ekki lengur skráð vörumerki fyrirtækisins þar í landi.
Pétur Vilhjálmsson greip þá inn og ræddi um vörumerkjaskráningu Domino‘s á Íslandi, nánar tiltekið um vörumerkið Megavika, sem hefur verið á borði Hugverkastofu undanfarna mánuði.
„Við getum tekið íslenskt dæmi um mál sem er núna í gangi. Það er engin niðurstaða komin í það, en Domino‘s gleymir að endurnýja Megavika. Daginn eftir sækir annar aðili um orðið Megavika og nú er bara komin í gang hörku debate um það hvor aðilinn á rétt á að fá þetta skráð,“ sagði Pétur.
Hjörvar sagði þá að Domino‘s eigi Megaviku. „Fyrir þér já,“ svaraði Jóhann Skúli. Pétur bætti við að þjóðin tengi auðvitað Megaviku við Domino‘s.
„En Domino‘s þarf síðan í kjölfarið, og allir sem missa svona rétt og fá svona á sig, að þurfa að standa í því að sýna fram á þetta allt saman. Þetta er bara eitthvað sem þú nennir ekkert að standa í,“ sagði Jóhann.
Pétur bætti við að fyrirtæki geti annaðhvort greitt 40 þúsund krónur til að endurnýja vörumerki sitt til næstu tíu ára eða greitt margar milljónir króna í lögfræðikostnað.
Umfjöllunin kom Magnúsi á óvart
Magnús segir að málið hafi verið í vinnslu hjá Hugverkastofu frá því í byrjun febrúar, bæði með því að hafa sent inn andmæli við umsókn Pizzunnar og endurnýjun á eigin umsókn. Í framhaldi óskaði Hugverkastofa eftir gögnum sem sýndu fram á notkun Domino‘s og lagði fyrirtækið þau gögn fram fyrir nokkru síðan.
„Það kom okkur á óvart að heyra fjallað um málið af starfsmönnum stofnunarinnar sem eru með málið til meðferðar þar sem ekki er komin niðurstaða í málið,“ segir Magnús að lokum.