Raf­mynta­fyrir­tæki Trump-fjöl­skyldunnar, World Liber­ty Financial, hefur eftir for­seta­kosningarnar skapað meiri verðmæti en nokkur annar hluti við­skipta­veldis Donald Trump.

Sam­kvæmt The Wall Street Journal er hlutur þeirra í félaginu metinn á um 4,5 milljarða bandaríkja­dala, eða rúm­lega 550 milljarða króna.

Vel­gengni fyrir­tækisins má að stórum hluta rekja til sam­starfs við raf­mynta­vett­vanginn Pan­ca­keSwap, sem starfar í raun undir stjórn Binance, stærsta raf­mynta­við­skipta­vett­vangi heims.

Sam­kvæmt heimildum Wall Street Journal var Pan­ca­keSwap þróað innan Binance árið 2020 og hefur síðan verið rekið undir eftir­liti fyrir­tækisins.

Vett­vangurinn er nú helsti markaður fyrir við­skipti með USD1, svo­kallaðan „stablecoin“ sem World Liber­ty gaf út í mars.

Um 90% allra við­skipta með myntina eiga sér stað á Pan­ca­keSwap, og við­skipta­magn jókst í sumar í yfir einn milljarð dollara á dag.

Sækir um náðun á meðan

Binance hefur um ára­bil verið undir smá­sjá bandarískra eftir­lit­saðila.

Stofnandi þess, Chang­peng Zhao („CZ“) var dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi í fyrra sam­hliða því að fyrir­tækið samþykkti að greiða 4,3 milljarða dollara í sekt fyrir peningaþvætti og brot á við­skiptaþvingunum.

Sam­kvæmt WSJ hefur CZ nú ráðið til sín al­manna­tengil sem er jafn­framt vinur Eric Trump til að þrýsta á um náðun frá Trump.

Á sama tíma hefur Binance aukið stuðning sinn við USD1, m.a. með því að halda eftir tveimur milljörðum dollara í myntinni á eigin vett­vangi.

Með því heldur World Liber­ty áfram að afla vaxta­tekna af þeim dollurum sem styðja við gengi myntarinnar. Tekjurnar eru áætlaðar um 80 milljónir dollara á ári miðað við núverandi vexti.

Trump-fjöl­skyldan á 40% hlut í World Liber­ty. Markaðsvirði fyrir­tækisins hefur ekki verið opin­berað, en stór hluti þess byggist á virði USD1.

Sam­starf World Liber­ty við Pan­ca­keSwap og Binance er eitt af nokkrum verk­efnum þar sem fjár­festar með sterk tengsl til Kína koma við sögu.

Þar má nefna Justin Sun, milljarðamæring í Hong Kong, og kín­verska stór­fyrir­tækið Wanxiang Group í gegnum raf­mynta­fyrir­tækið Has­hK­ey.

Þetta gerist sam­hliða því að Trump-stjórnin reynir að draga úr við­skipta­tengslum Bandaríkjanna við Kína af öryggisástæðum.

Þrátt fyrir yfir­lýsingar Binance um að fyrir­tækið sé ekki kín­verskt er Kína stærsti markaður þess og þar starfa hundruð for­ritara þess.

Eric Trump hyggst í ágúst ferðast til Hong Kong til að hitta mögu­lega nýja sam­starfsaðila á raf­myntaráð­stefnu, að sögn heimilda WSJ.

Hvíta húsið hafnar öllum ásökunum um hags­munaá­rekstra.

„For­seti Bandaríkjanna og fjöl­skylda hans hafa aldrei tekið þátt í, og munu aldrei taka þátt í, hags­munaá­rekstrum,“ sagði Karoline Lea­vitt, blaða­full­trúi for­setans.