Rafmyntafyrirtæki Trump-fjölskyldunnar, World Liberty Financial, hefur eftir forsetakosningarnar skapað meiri verðmæti en nokkur annar hluti viðskiptaveldis Donald Trump.
Samkvæmt The Wall Street Journal er hlutur þeirra í félaginu metinn á um 4,5 milljarða bandaríkjadala, eða rúmlega 550 milljarða króna.
Velgengni fyrirtækisins má að stórum hluta rekja til samstarfs við rafmyntavettvanginn PancakeSwap, sem starfar í raun undir stjórn Binance, stærsta rafmyntaviðskiptavettvangi heims.
Samkvæmt heimildum Wall Street Journal var PancakeSwap þróað innan Binance árið 2020 og hefur síðan verið rekið undir eftirliti fyrirtækisins.
Vettvangurinn er nú helsti markaður fyrir viðskipti með USD1, svokallaðan „stablecoin“ sem World Liberty gaf út í mars.
Um 90% allra viðskipta með myntina eiga sér stað á PancakeSwap, og viðskiptamagn jókst í sumar í yfir einn milljarð dollara á dag.
Sækir um náðun á meðan
Binance hefur um árabil verið undir smásjá bandarískra eftirlitsaðila.
Stofnandi þess, Changpeng Zhao („CZ“) var dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi í fyrra samhliða því að fyrirtækið samþykkti að greiða 4,3 milljarða dollara í sekt fyrir peningaþvætti og brot á viðskiptaþvingunum.
Samkvæmt WSJ hefur CZ nú ráðið til sín almannatengil sem er jafnframt vinur Eric Trump til að þrýsta á um náðun frá Trump.
Á sama tíma hefur Binance aukið stuðning sinn við USD1, m.a. með því að halda eftir tveimur milljörðum dollara í myntinni á eigin vettvangi.
Með því heldur World Liberty áfram að afla vaxtatekna af þeim dollurum sem styðja við gengi myntarinnar. Tekjurnar eru áætlaðar um 80 milljónir dollara á ári miðað við núverandi vexti.
Trump-fjölskyldan á 40% hlut í World Liberty. Markaðsvirði fyrirtækisins hefur ekki verið opinberað, en stór hluti þess byggist á virði USD1.
Samstarf World Liberty við PancakeSwap og Binance er eitt af nokkrum verkefnum þar sem fjárfestar með sterk tengsl til Kína koma við sögu.
Þar má nefna Justin Sun, milljarðamæring í Hong Kong, og kínverska stórfyrirtækið Wanxiang Group í gegnum rafmyntafyrirtækið HashKey.
Þetta gerist samhliða því að Trump-stjórnin reynir að draga úr viðskiptatengslum Bandaríkjanna við Kína af öryggisástæðum.
Þrátt fyrir yfirlýsingar Binance um að fyrirtækið sé ekki kínverskt er Kína stærsti markaður þess og þar starfa hundruð forritara þess.
Eric Trump hyggst í ágúst ferðast til Hong Kong til að hitta mögulega nýja samstarfsaðila á rafmyntaráðstefnu, að sögn heimilda WSJ.
Hvíta húsið hafnar öllum ásökunum um hagsmunaárekstra.
„Forseti Bandaríkjanna og fjölskylda hans hafa aldrei tekið þátt í, og munu aldrei taka þátt í, hagsmunaárekstrum,“ sagði Karoline Leavitt, blaðafulltrúi forsetans.