Sala á raforku til okkar er að hækka um 20-25% um áramótin. Þar sem við notum mikið rafmagn er þetta umtalsverð upphæð fyrir okkur,“ segir Kristján Theodórsson, framkvæmdastjóri Myllunnar-Ora.

Hann bætir við að fyrirtækið hafi aldrei fengið álíka mikla hækkun á rafmagnsverði á sitt borð.

Myllan-Ora ehf. hét áður ÍSAM ehf., en félagið á og rekur matvöruframleiðslu undir merkjum Myllunnar, Kexsmiðjunnar, Fróns og Ora. Var félaginu skipt upp fyrir þremur árum og er ÍSAM (heildsala) nú hluti af Ó. Johnsson & Kaaber – ÍSAM ehf.

Aðrir innlendir matvælaframleiðendur hafa lýst svipaðri stöðu á undanförnum misserum.

Axel Sæland, formaður grænmetisbænda hjá Bændasamtökum Íslands, sagði í viðtali hjá Ríkisúvarpinu á dögunum að vegna fjórðungshækkunar raforku til garðyrkjubænda gæti verð á íslensku grænmeti hækkað um allt að 12% um áramótin.

8,4% raunhækkun raforkuverðs

Samkvæmt Hagstofunni hefur rafmagnsverð hækkað um 13,2% á síðustu tólf mánuðum.

Á sama tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 4,8% og hefur raunverð raforku því hækkað um 8,4% á síðustu tólf mánuðum. Rafmagnsverð hefur ekki hækkað jafn mikið á ársgrundvelli síðan 2011, eða í 13 ár.

Í greiningu Samtaka iðnaðarins segir að raforkuframleiðsla hafi ekki haldið í við vöxt og viðgang samfélagsins, þar á meðal fólksfjölgun. Kyrrstaða í raforkuöflun á síðastliðnum 10-15 árum hafi leitt til umræddra raforkuverðshækkana.

Þættir eins og skortur á uppbyggingu á nauðsynlegum innviðum í raforkukerfinu, léleg vatnsár og flutningstakmarkanir í fulllestuðu raforkukerfi spili þar stórt hlutverk.

Þá segir í greiningu SI að hækkun á raforkuverði endurspegli mikla hækkun á raforkuverði á heildsölumarkaði, sem mælist 32-34% frá síðasta sumri, samkvæmt gögnum frá raforkumarkaðnum Vonarskarði.

Sölufyrirtæki sem selja rafmagn á almenna markaðnum kaupa raforku í miklu magni í heildsölu og selja hana síðan í smásölu til heimila og fyrirtækja. Því skilar hækkun á verði raforku í útboðum Vonarskarðs á heildsölumarkaði sér til fyrirtækja og heimila í formi hærra raforkuverðs.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.