Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur hætt við framboð sitt til forseta Alþýðusambands Íslands. Þetta kemur fram á vef Ríkisútvarpsins.
Þá hafa Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins og Verkalýðsfélags Akraness, einnig dregið til baka framboð sín í embætti 2. og 3. varaforseta ASÍ, að því er kemur fram í frétt hjá mbl.is
Heimildir mbl.is herma að legið sé undir feldi hvort þessi félög eigi að segja sig úr ASÍ, en Ragnar hefur oftar en einu sinni viðrað þá hugmynd.
45. þing ASÍ var sett klukkan tíu í gærmorgun og stendur þingið yfir dagana 10. - 12. október.
Enn opið fyrir framboð
Eins og stendur er Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari Eflingar, ein í framboð til forseta ASÍ, en kosið verður í embættin á morgun. Framboðsfrestur er þó ekki runninn út.
Ólöf mætti í viðtal hjá Vísi um hálf fjögur leytið í dag þegar hlé var gert á fundi. Þar sagðist hún hissa á því að Ragnar hefði dregið framboð sitt til baka, „jafnvel í smá sjokki.“ Hún vildi þó ekki lesa of mikið í ákvörðunina.
Aðspurð hvort ákvörðun Ragnars þýddi að hún væri sjálfkjörin forseti ASÍ, svaraði hún því neitandi. Enn væri opið fyrir framboð.
Gagnrýnir Ólöfu Helgu
Í viðtali hjá RÚV gagnrýndi Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, Ólöfu Helgu Adolfsdóttur, ritara Eflingar, og fólk úr öðrum félögum sem hafði gert sig sek um þann „ósóma“ að flykkja sér um Ólöfu. Sagði hún Ólöfu hafa orðið uppvísa að því að „njósna um sig í pólitísku tilgangi“ eins og hún orðar það.
„Við höfum aldrei fengið neina viðurkenningu, neinn stuðning, nokkurn skapaðan hlut,“ sagði Sólveig Anna um láglaunakonur. Aðspurð hvort Efling færi úr ASÍ sagði Sólveig Anna það vera umræðu sem verði tekin á lýðræðislegum vettvangi Eflingar.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins sagði í samtali við Ríkisútvarpið að of mikið væri um hatur og persónulegt níð á milli einstakra forystumanna, en Ragnar Þór, formaður VR, vildi ekki tjá sig við fjölmiðla.