„Er það eitthvað skárra að hafa hangandi yfir sér 200 milljarða reikning eftir nokkur ár? Ég sé ekki að þetta sé neitt verra,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra spurður um þau skaðlegu áhrif sem margra ára málarekstur fyrir dómstólum með tilheyrandi óvissu gæti haft á markaðinn og víðar. Því til viðbótar telur hann ekki rétt að byggja ákvörðun í málum sem þessum á slíku mati.
„Ríkið lætur ekkert hóta sér, ef ríkið telur sig hafa góðan málstað þá bara verja menn þann málstað. Ég er ekki að búa þetta vandamál til. Þetta er vandamál sem leiðir af samsetningu sjóðsbréfanna og uppgreiðsluáhættunni. Ég er að reyna að færa hér fram lausn.“
Að því sögðu segir hann þó farsælustu lausnina tvímælalaust fólgna í því að málið verði afgreitt á sem skemmstum tíma, og vonast til að svo verði.
„Við verðum bara að sjá. Ég er alltaf vongóður um að við finnum einhverja góða lausn. Ég held að það væri mikið óráð fyrir alla ef lífeyrissjóðirnir vildu ekki ganga til verks í þessu máli – sem verður ekki leyst með því að horfa í hina áttina – á grundvelli laga og reglna.“
Nánar er rætt við Bjarna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.