Fasteignasafn norska leigufélagsins Heimstaden á Íslandi var metið á yfir 72 milljarða króna um mitt þetta ár eftir að hafa hækkað um ríflega 7 milljarða króna frá áramótum, þar af um hátt í 6 milljarða á öðrum ársfjórðungi einum og sér.
Móðurfélag Heimstaden, Fredensborg ICE, tók íslenska leigufélagið Heimavelli yfir á vormánuðum 2020 fyrir 17 milljarða króna en bókfært virði eignasafnsins nam þá tæpum 49 milljörðum og eigið fé rétt ríflega 20. Kaupverðið var því um 15% undir bókfærðu virði félagsins.
Hefði haldið að Heimavellir hentuðu lífeyrissjóðunum
Heimavellir höfðu átt erfitt uppdráttar fyrir yfirtökuna en markaðsvirði félagsins hafði verið undir bæði skráningarvirðinu og bókfærðu virði allt frá því að bréfin voru tekin til viðskipta í Kauphöllinni í maí 2018.
Markaðsaðilar virtust sýna félaginu lítinn áhuga, sem birtist meðal annars í því að meðalvaxtakjör útgefinna skuldabréfa þess með veði í fasteignasafninu voru á þessum tíma verri en þau kjör sem heimilunum stóðu þá til boða á fasteignalánum.
Hersir Sigurgeirsson, dósent í fjármálum við Háskóla Íslands, segir sér óneitanlega hafa þótt það merkilegt að ekki hafi tekist betur til að koma félaginu á legg.
„Þeim gekk illa að fjármagna sig og fengu slæm kjör, en maður hefði haldið að þetta þætti góður fjárfestingakostur, hann virðist á yfirborðinu í það minnsta henta lífeyrissjóðum ágætlega.“
Þrátt fyrir að lífeyrissjóðirnir ættu um hálfa Kauphöllina á þeim tíma var aðeins einn lífeyrissjóð að finna á meðal 10 stærstu hluthafa Heimavalla, en Birta lífeyrissjóður átti 9,7% hlut í félaginu. Arnar Gauti Reynisson framkvæmdastjóri lét auk þess hafa eftir sér að lífeyrissjóðirnir hefðu ekki stutt við félagið á skuldabréfamarkaði, sem hafi haft mikil áhrif.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.