Lífskjarasamningarnir sem tóku gildi um mitt ár 2019, renna út þann 1. nóvember og eru viðræður nú þegar hafnar á milli aðila á vinnumarkaði. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir styttri samninga minnka líkur á stærri kerfisbreytingum og að krafa félagsmanna VR hafi ávallt verið langtímasamningar.
„Þá vísa ég til húsnæðismála þar sem frekari aðkoma stjórnvalda er nauðsynleg ef við ætlum að koma á leiguþaki eða ráðast í mikla uppbyggingu til að auka framboð.“ Hann segist þó eiga erfitt með að sjá fyrir sér aðkomu stjórnvalda í komandi kjarasamningum. „Það er margt sem stendur eftir af efndum stjórnvalda frá síðasta samningi og þau njóta einfaldlega ekki trausts.“
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir hins vegar að í sögulegu tilliti hafi verið samið til skamms tíma þegar verðbólga og óvissa ríki.
Tilraun sem mun aldrei takast
Haft var eftir Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra í viðtali í fréttum Stöðvar 2 í lok mars síðastliðnum að hann geri ráð fyrir launahækkunum sem nemi rúmlega það sem verðbólgan verði. Halldór segir ráðherra þurfa að skýra það betur hvað hann eigi við.
„Hagsaga Íslands er lituð af því að þetta er tilraun sem mun aldrei takast. Þetta var meginreglan á íslenskum vinnumarkaði á sjöunda, áttunda og níunda áratug síðustu aldar, þar sem við lentum í sífelldri víxlverkun launa og verðlags sem skilaði engri kaupmáttaraukningu á tímabilinu.“
Þessi frétt er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.