Við vinnslu á uppgjöri þriðja ársfjórðungs 2022 VÍS kom í ljós að uppfæra þurfti horfur ársins, sem gefnar voru út 31. janúar síðastliðinn, um að samsett hlutfall ársins verði á bilinu 95-97%. Áhrif breyttra verðbólguvæntinga Seðlabanka Íslands á fyrstu níu mánuðum ársins á samsett hlutfall félagsins er metið til þriggja prósenta hækkunar á ársgrundvelli. Auk þess var þriðji ársfjórðungur tjónaþyngri en gert var ráð fyrir. Þetta leiðir til þess að nú er áætlað að samsett hlutfall ársins verði á bilinu 98-100%.
Þetta kemur fram í tilkynningu VÍS til Kauphallarinnar. „Eins og hefur komið fram í fjárfestakynningum félagsins, hafa hækkandi verðbólguvæntingar frá Seðlabanka Íslands neikvæð áhrif á samsett hlutfall. Á móti kemur að hækkun vaxta lækkar núvirðingu tjónaskuldar og hefur þar með jákvæð áhrif á afkomuna í gegnum tæknilegar vaxta- og gengisbreytingar sem hafa ekki áhrif á samsetta hlutfallið. Samanlögð áhrif þessara tveggja þátta á afkomu ársins er óveruleg,“ segir jafnframt í tilkynningunni.