Seðlabankinn Íslands telur tímabært að setja ákvæði í lög um lífeyrissjóði sem gera kröfur til sjóðanna um að þeir taki tillit til UFS-þátta (e. ESG) og áhættu tengda þeim við töku fjárfestingarákvarðana. Þetta kemur fram í nýrri umræðuskýrslu bankans um lífeyrissjóði.
Seðlabankinn segir að með lögum nr. 113/2016, um breytingu á lögum um lífeyrissjóði, voru gerðar umtalsverðar breytingar á ákvæðum um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða og eftirlitskerfi með áhættuþáttum. Þar hafi m.a. verið sett inn ákvæði um að lífeyrissjóðir setji sér siðferðileg viðmið í fjárfestingum.
„Almennt er talið að þetta ákvæði sé takmarkandi og nái ekki til þeirra þátta sem endurspegla vaxandi áhuga á samþættingu fleiri sjónarmiða við fjárfestingarákvarðanir lífeyrissjóða eins og umhverfis og samfélagslega þætti ásamt góðum stjórnarháttum.“
Seðlabankinn segir að á vettvangi Evrópusambandsins (ESB) hafi verið lögð aukin áhersla á umhverfis- og félagslega þætti og stjórnarhætti, svokallaða UFS-þætti sem endurspeglist m.a. í SFDR og Taxonomy reglugerðunum. Þessar reglugerðir voru innleiddar í íslenskan rétt með lögum nr. 25/2023, um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar.
Seðlabankinn segir að í sambandi við tillögu sína um að herða löggjöf um kröfur til lífeyrissjóða varðandi UFS-þætti, þá sé líka hægt að horfa til IORP II-tilskipunarinnar.
„IORP II-tilskipunin leggur ríka áherslu á að litið sé til UFS-þátta við fjárfestingarákvarðanir sjóðanna og er þar stuðst við tilmæli og skilgreiningar Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar.“