Á dögunum var greint frá áformum bandaríska félagsins Modularity, í samstarfi við Borealis Data Center, um lagningu neðansjávar fjarskiptasæstrengja sem eiga að bæta gagnatengingar milli Íslands og Bandaríkjanna auk þess að bæta tengingar landsins við meginland Evrópu.
Í dag liggja þrír virkir fjarskiptastrengir milli Íslands og Evrópu sem eru allir reknir af ríkisfyrirtækinu Farice ehf.
Nýjasti strengurinn, Íris, sem liggur til Írlands var tekinn í gagnið í mars 2023. Auk þess rekur félagið sæstrenginn Danice sem klárað var að leggja til Danmerkur árið 2009 og FARICE-1 strenginn sem liggur til Skotlands en hann var opnaður í janúar 2004.
Þorvarður Sveinsson, framkvæmdastjóri Farice, segir að framangreindir strengir duga vel út frá þörfum íslensks samfélags og þeirra gagnavera sem eru starfandi á Íslandi í dag.
Hann nefnir í því samhengi að félagið réðst í gagngera rýni á elsta sæstrengnum, FARICE-1, í fyrra og gaf sú endurskoðun til kynna að hann muni lifa í áratug til viðbótar, ef ekki lengur.
„Ef það á hins vegar að byggja risagagnaver fyrir gervigreindarvinnslu, þ.e. gagnaver af annarri stærðargráðu en sést hefur hér á landi, þá get ég tekið undir það mat að þörf sé á fjárfestingu í nýjum sæstrengi. Það er bara af því að bandvíddarþarfinar yrðu svo miklar.“
Spurður um áhrif nýju strengja Modularity á áform Farice, þá segir hann að félagið muni auðvitað fylgjast vel með framvindu mála. Hann fagnar því ef leggja á fleiri strengi til Íslands og bæta þannig tengingu til landsins. Auk þess kynni þetta að leiða sér möguleika á samstarfi.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun um málið í Viðskiptablaði vikunnar.