Her Rússlands í Úkraínu er að verða uppiskroppa með vopnabúnað að sögn Sir Jeremy Fleming, yfirmanns bresku netnjósnadeildar GCHQ. Hann segir að hinn hefðbundni Rússi átti sig nú að því að innrásin hafi verið alvarlega misreiknuð. Financial Times greinir frá.
„Við vitum – og rússneskir herstjórar vita að – birgðir og hergögn þeirra eru að verða uppiskroppa,“ sagði Fleming á fundi hjá hugveitunni Royal United Services Institute í gær. „Rússneski heraflinn er dauðþrettur. Að taka fanga, og nú þessi herkvaðning sem nær til tugi þúsunda óreyndra hermanna, ber merki um örvæntingu.“
Fleming sagði að almenningur í Rússlandi reyni nú að flýja herkvaðninguna. Jafnframt geri Rússar sér grein fyrir að lokað verði á flutninga úr landi og aðgangur að nútímatækni og ytri samskiptum verði takmörkuð. „Þau finna núna fyrir umfangi hins hræðilega manntjóns af völdum stríðsákvarðana Pútín“.
Samkvæmt óháðri könnun rússnesku rannsóknarsamtakanna Levada Center, sem birt var 1. september, óttaðist nærri helmingur Rússa herkvaðningu. Enn var þó mikill stuðningur við aðgerðir stjórnvalda í Kreml.
Telur enn langt í beitingu kjarnorkuvopna
Rússaher gerði loftárásir á úkraínskar borgir í gær, sem Vladímír Pútín Rússlandsforseti lýsti sem hefndaraðgerð fyrir sprengjuna á Kerch-brúnni, sem liggur á milli Krímskaga og Rússlands, um helgina.
Spurður hvort hann líti á loftárásir Rússa sem fyrsta skref í átt að notkun kjarnorkuvopna, svaraði Fleming að árásirnar væru ekki stigmagnandi hvað varðar tegundir vopna sem Rússar styðjast við. „Hvað það varðar má segja að árásin fylgi mynstri stríðsins hingað til.“
„Ég tel að, á þessari stundu, að afstaða Rússa og nálgun Pútín til stríðsins hafi í för með sér að vonandi er enn langt í [mögulega beitingu kjarnorkuvopna].“