Vegna misvísandi frétta vill Valitor vill koma því á framfæri að notkun íslenskra VISA greiðslukorta gengur greiðlega hér heima og erlendis.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Valitor og er sagt eiga bæði við VISA kredit-og debetkort.

Þá kemur fram í tilkynningunni að erlendar úttektir beggja tegunda kortanna fara nú eftir VISA gengi sem hægt er að finna á vefsíðu Valitor, www.valitor.is .

Þá segir í tilkynningunni að gengismál séu nú aftur í meira jafnvægi en í byrjun óvissutímans.

Valitor segir gengismun hafa myndast dagana 7. og 8. október sem rekja mátti til stöðu íslensku krónunnar á alþjóðlegum gjaldeyrismarkaði. Frá og með 9. október síðast liðnum hafa aðrar uppgjörsaðferðir við VISA International leitt til VISA gengis í samræmi við gengi Seðlabankans.

„Öll uppgjör við verslanir og söluaðila sem eru með söluaðilasamning við Valitor, hafa verið á tilsettum tíma og áfallalaust,“ segir í tilkynningunni.

„Vel gekk að yfirfara heimildir hjá korthöfum og snerti sú aðgerð mjög fáa þegar upp var staðið, enda var um niðurfærslu á ónýttum heimildum að ræða. Korthöfum er bent á að hafa samband við útgáfubanka sinn vegna nánari upplýsinga um stöðu heimilda.“