Johan Norberg, rithöfundur og einn fremsti talsmaður efnahagslegs frelsis og nýsköpunar á heimsvísu, segir að Ísland eigi að halda áfram að vera opið fyrir nýjum hugmyndum og tækifærum, sérstaklega á sviði grænnar orku og gervigreindar.
Norberg var meðal ræðumanna á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs Íslands sem fór fram í Borgarleikhúsinu í gær.
Í samtali við Viðskiptablaðið segir Norberg Ísland vera í kjörstöðu með lítið sveigjanlegt hagkerfi sem getur brugðist hratt við breytingum og nýtt sér alþjóðlega strauma hnattvæðingar og tækniþróunar.
Norberg hefur árum saman, í ræðu og riti, lagt áherslu á að sagan sýni skýrt fram á kraft efnahagslegs frelsis til að draga úr fátækt og bæta lífsgæði. „Lífskjör í heiminum stóðu í stað í nærri fimm þúsund ár. Á síðustu tvö hundruð árum hefur orðið fordæmalaus aukning lífskjara – fyrst í Bretlandi og síðan um allan heim,“ segir Norberg og bætir við að lykillinn að þessari aukningu lífskjara hafi verið aukið viðskiptafrelsi og frjálsir markaðir.
Frá árinu 1990 hafa að meðaltali yfir 130 þúsund manns komist út úr fátækt á hverjum degi. Norberg bendir á að þau lönd sem hafa opið hagkerfi hafi náð mestum árangri í þeim efnum, þar á meðal Ísland.
„Frjáls markaður og frjáls viðskipti gera fleiri aðilum kleift að leita lausna á vandamálum okkar með nýjum hugmyndum og lausnum. Því fleiri sem fá frelsi til að gera þetta, því meiri líkur eru á að einhverjir komi fram með nýsköpun og lausnir sem við gátum ekki séð fyrir og sem bæta heiminn,“ segir Norberg.
Ekki setja öll eggin í eina körfu
Norberg tekur COVID-19 heimsfaraldurinn og stríðið í Úkraínu sem dæmi um ófyrirséðar áskoranir sem hafa reynt á hagkerfi heimsins.
„Við höfum séð að sú hugmynd að alþjóðlegar birgðakeðjur væru hættulegar reyndist röng. Fyrirtæki og lönd sem eru opin hafa staðið sig betur en önnur, einfaldlega vegna þess að þau höfðu fjárfest meira í tengslum og valkostum og gátu því endurskipulagt sig hratt. Aftur á móti gætu þau sem treystu á stuttar birgðakeðjur staðið frammi fyrir því að eini birgir þeirra hverfi skyndilega. Þetta er ástæðan fyrir því að gamla máltækið er ekki „Settu öll eggin í eina körfu og verndaðu hana með tollum“.
Norberg nefnir Suður-Kóreu, Taívan og Víetnam sem dæmi um lönd sem hafa náð góðum árangri í að laga sig að breyttum aðstæðum. Hann hrósar einnig Íslandi fyrir að hafa sýnt seiglu og aðlögunarhæfni í efnahagslegum áskorunum undanfarinna ára.
Þá hafi fyrrum kreppulönd í Suður-Evrópu einnig náð góðum árangri í því að gera umtalsverðar umbætur á hagkerfum sínum.
Norberg segir Ísland í einstakri stöðu til að leiða þróun í grænni orku og tækni, en hann varar við því að stjórnvöld reyni að velja sigurvegara í ákveðnum atvinnugreinum.
Stjórnvöld léleg í að velja sigurvegara
„Vandinn við að velja sigurvegara er sá að stjórnvöld eru léleg í því – en taparar eru hins vegar mjög góðir í því að velja stjórnvöld og skattfé almennings,“ sagði Norberg í Borgarleikhúsinu í gær við fögnuð viðstaddra.
Í samtali við Viðskiptablaðið segir hann það skipta meira máli að stjórnvöld búi til gott rekstrarumhverfi og leyfi markaðnum að finna bestu lausnirnar.
„Meginráðlegging mín til Íslands er að halda áfram að vera opið. Þið eruð svo lítil að þið þurfið á hugmyndum, fólki og tækni frá öðrum stöðum að halda, en á sama tíma eruð þið svo fá að þið getið brugðist hratt við og tekið nýja stefnu þegar tækifæri gefast. Það er frábær eiginleiki. Þið þurfið ekki að hafa áhyggjur af því að finna upp gervigreind – þið getið orðið þau bestu í heiminum þegar kemur að því að nota hana og beita henni,“ segir Norberg.
„Þið verðið að vera varfærnislega tortryggin og gera ykkur grein fyrir því að einhver er alltaf að reyna að stela markaðnum ykkar og gera viðskiptamódelið ykkar úrelt. Þess vegna verðið þið að vera á undan. Hafið ekki áhyggjur af því þó að þið vitið ekki nákvæmlega hvernig – það kemur í ljós ef þið haldið ykkur virk og haldið huganum opnum,“ bætir Norberg við.