Rekstur ACRO verðbréfa gekk vel á síðasta ári. Velta félagsins nam 854 milljónum króna, sem er tæplega 50% hækkun á milli ára, og hagnaðurinn 349 milljónum króna. Í júní á síðasta ári veitti Seðlabanki Íslands félaginu starfsheimild fyrir eignastýringarþjónustu. Í kjölfarið var nafni félagsins breytt í ACRO verðbréf.
Hannes Árdal, framkvæmdastjóri ACRO verðbréfa, segir styrkleika fyrirtækisins fyrst og fremst liggja í starfsfólkinu sem samanstandi af reynslumiklu starfsfólki í bland við öfluga fulltrúa næstu kynslóðar á fjármálamarkaði. „Undanfarin ár hafa styrkleikar okkar legið í verðbréfamiðlun, en við sjáum á sama tíma mikla möguleika í eignastýringunni sem er ört stækkandi hjá okkur,“ segir Hannes.
Umsvifin aukist jafnt og þétt
Félagið var stofnað árið 1994 sem verðbréfamiðlun undir nafninu Íslenskir fjárfestar hf. Núverandi hluthafar komu að félaginu á árunum 2017-2018 og tóku við rekstrinum sem hafði verið svo til óbreyttur frá upphafi. „Við útvíkkuðum starfsemi félagsins á síðasta ári þegar við hófum meðal annars að bjóða upp á eignastýringarþjónustu. Á þeim tímamótum þótti okkur við hæfi að endurskoða nafn félagsins og úr varð nafnið ACRO verðbréf.“
Nýir eigendur hafa undanfarin ár lagt áherslu á að byggja félagið upp og eru nokkuð ánægðir með afraksturinn hingað til. „Umsvif okkar hafa aukist jafnt og þétt, starfsemin gengið vel og viðskiptavinirnir eru ánægðir. Við erum bæði stolt og ánægð með undanfarin ár og ætlum okkur að halda áfram á þeirri braut sem við höfum verið á.“
Höfuðáhersla á langtímaárangur
Hann segir síðasta ár hafa gengið vel hjá ACRO og viðskiptavinum þess. Mikill vöxtur og aukin umsvif á hlutabréfamarkaði hafi einkennt árið og góður árangur hafi náðst á flestum eignamörkuðum. „Það ætti ekki að hafa farið framhjá neinum að eignamarkaðir hafa ekki verið jafn gjöfulir á þessu ári en okkur hefur tekist nokkuð vel til við að vinna með okkar viðskiptavinum í verðbréfamiðlun og alveg sérstaklega í eignastýringu.“
Að sögn Hannesar leggur eignastýring ACRO höfuðáherslu á að vinna með viðskiptavinum sínum að langtímaárangri með markmið viðskiptavinarins að leiðarljósi. Félagið sé sérhæft í miðlun fjárfestinga í erlendum verðbréfa- og framtakssjóðum og geri það í samstarfi við erlenda aðila.
„Við erum aðallega að stýra eignum fyrir einkafjárfesta, þá aðallega fjölskyldur og fyrirtæki í eigu einkaaðila. Frá stofnun félagsins höfum við lagt gríðarlega áherslu á erlendar fjárfestingar og erum í samstarfi með mörgum erlendum aðilum á eigna- og sjóðastýringarsviði.“ Þá leggi félagið að auki mikla áherslu á að fjárfestingar þess séu óháðar og hefur sett sér sérstakar starfsreglur og verkferla til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra.
Miklar hreyfingar í núverandi umhverf
Hannes segir fjármálamarkaðinn vera síbreytilegan. „Það eru margir hlutir á hreyfingu í núverandi markaðsumhverfi, vextir í heiminum eru á uppleið, fjármagn færist yfir í öruggari myntir, aðallega Bandaríkjadal, sem getur aukið á vandræði minni myntsvæða eins og t.d. Íslands.“
Aftur á móti segir hann mikil tækifæri felast í því að verið sé að taka Ísland inn í heim nýmarkaðsríkja hjá FTSE Russell, sem muni hafa gríðarlega jákvæð áhrif á íslenskt markaðs- og hagkerfi. „Við hjá ACRO höfum lagt mikið upp úr því undanfarið að greina þessar breytingar svo við, og ekki síður viðskiptavinir okkar, séum sem best undir þær búin.“
Viðtalið birtist í sérblaðinu Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, sem fylgdi Viðskiptablaðinu í síðustu viku. Blaðið er opið öllum og hægt er að nálgast það hér.