Framtakssjóður í stýringu Alfa Framtaks hefur í dag ákveðið að leggja fram valfrjálst tilboð í allt hlutafé Origo. Tilboðið verður lagt fram í nafni AU 22 ehf. sem fer þegar með 36.182.430 hluti, sem samsvarar um 25,8% af heildarhlutafé og atkvæðisrétti í Origo. AU 22. Félagið er í fullri eigu Umbreytingar II, framtakssjóðs í rekstri Alfa Framtaks. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar sem send var út um klukkan eitt í nótt, en á svipuðum tíma var send út flöggunartilkynning þar sem eignarhlutur AU 22 fór yfir 25%.

Í tilkynningu til Kauphallar segir að Alfa Framtak telji eðlilegt að til skoðunar komi hvort að óskað verði eftir afskráningu félagsins úr kauphöll til að að skapa aukinn sveigjanleika fyrir þær breytingar sem framtakssjóðurinn telur að ráðast þurfi í.

Í tilkynningunni kemur fram að tilboðsverðið verði 101 króna á hlut, sem er jafnhátt og síðasta viðskiptaverð hluta Origo í viðskiptum í kauphöll Nasdaq Iceland þann 9. desember síðastliðinn og er hæsta gengi sem AU 22 hefur greitt fyrir hlutabréf í Origo á síðastliðnum sex mánuðum.

„Tilboðsverðið er 14,4% hærra en veltuleiðrétt meðalverð hlutabréfa í Origo að teknu tilliti til lækkunar hlutafjár frá tilkynningu um sölu Tempo og 11% hærra frá því að hlutafjárlækkun fór fram 7. desember sl. Greitt verður fyrir hluti með reiðufé. Tilboðið uppfyllir þannig skilyrði X. kafla laga nr. 108/2007 um yfirtökur („lög um yfirtökur“) eins og um yfirtökutilboð væri að ræða,“ segir í tilkynningu framtakssjóðsins.

Tilboðið mun taka til allra hluta í Origo sem ekki eru þegar í eigu tilboðsgjafa eða Origo. Það verður meðal annars háð skilyrðum um fullnægjandi fjármögnun og að samþykki fáist frá viðeigandi eftirlitsstofnunum.

Arion banki og LEX eru ráðgjafar Alfa Framtaks og AU 22.

Kaflaskil í kjölfar Tempo sölu

Í tilkynningu framtakssjóðsins til Kauphallarinnar er farið yfir ástæðu yfirtökutilboðsins. Þar segir að Origo sé rótgróið upplýsingatæknifyrirtæki sem samanstandi af mörgum mismunandi einingum sem runnið hafi saman í gegnum tíðina. Félagið hafi gengið í gegnum miklar breytingar í ytra umhverfi undanfarin ár með skýjavæðingu og breyttum áherslum og kröfum viðskiptavina til upplýsingatækni. Alfa Framtak hafi fylgst náið með félaginu og aðdáunarverðri vegferð starfsmanna, stjórnenda og eigenda félagsins við uppbyggingu eins öflugasta upplýsingatæknifélags Íslands.

Ákveðin kaflaskil hafi nú átt stað hjá félaginu í kjölfar sölu Tempo til fjárfestingasjóðsins Diversis Capital. „Alfa Framtak vill taka þátt í þeim umbreytingum sem eru fylgifiskur slíkra kaflaskila í samvinnu við stjórnendur og aðra hluthafa með því að skerpa enn frekar á þjónustuframboði og skipulagi félagsins – viðskiptavinum og félaginu til hagsbóta.

Í ljósi þessa telji framtaskssjóðurinn eðlilegt að til skoðunar komi hvort að óskað verði eftir afskráningu félagsins úr kauphöll, til að að skapa aukinn sveigjanleika fyrir þær breytingar sem ráðast þurfi í.

Heildareignir í stýringu Alfa Framtaks nema 22 milljörðum króna í tveimur framtakssjóðum en yfir 50 fagfjárfestar eiga hlutdeildarskírteini í sjóðunum. Framtakssjóðurinn Umbreyting seldi í nóvember ríflega þriðjungshlut sinn í Nox Health, móðurfélagi Nox Medical til bandaríska fjárfestingarsjóðsins Vestar Capital Partners.