Fasteignafélagið Reitir hafa undirritað sérleyfissamning við Hyatt Hotels Corporation um rekstur hótels í fasteign félagsins að Laugavegi 176 í Reykjavík. Um er að ræða húsnæðið sem hýsti rekstur Ríkissjónvarpsins, áður en Sjónvarpið flutti í Útvarpshúsið á Efstaleiti í ágúst 2000.
Í dag eru fyritæki eins og Godo, Rvk Studios, Sagaevents, Sögn ehf Blueeyes Produtions, Mentis Cura og Protak eld- og hljóðvarnir ásamt Félagi Sameinuðu þjóðanna og Unicef á Íslandi í húsnæðinu. Einnig eru hótelíbúðir þar undir merkjum 101 Apartments.
Hótelið mun verða um 169 herbergja hótel með allri tilheyrandi starfsemi, svo sem veitingastað, bar, fundaaðstöðu og heilsurækt. Fjárfesting Reita í endurbyggingu fasteignarinnar er áætluð um fjórir milljarðar króna og mun stærsti hluti hennar falla til á árinu 2022. Verður hún að stærstum hluta fjármögnuð með lánsfé.
Mun hótelið verða fyrsta hótelið sem rekið verður undir merkjum Hyatt á Norðurlöndunum. Vörumerkið leggur áherslu á hátt þjónustustig, vandað efnisval, fallega hönnun og nútímaleg herbergi í háum gæðaflokki. Hyatt Hotels Corporation er alþjóðleg hótelkeðja með höfuðstöðvar í Chicago í Bandaríkjunum, en vörumerki keðjunnar eru 20 talsins. Þann 30. júní 2019 kom hótelkeðjan að rekstri 875 hótela í yfir sextíu löndum í sex heimsálfum.
Framkvæmdir við umbreytingu fasteignarinnar í hótel munu hefjast á síðari hluta næsta árs og er áætlað að hótelið hefji starfsemi sína á síðari hluta ársins 2022. Reitir stefna að því að halda eigninni í eignasafni félagsins til lengri tíma litið, en selja rekstrarfélagið til traustra rekstraraðila.
„Síðastliðið ár höfum við lagt mikla vinnu í að kynna okkur Norræna markaðinn og að kynnast þróunaraðilanum og fasteignaeigandanum á Íslandi,“ segir Peter Norman, framkvæmdastjóri þróunar hjá Hyatt.
„Innkoma okkar á markaðinn með Hyatt Centric Reykjavík er því mikilvægur áfangi fyrir okkur. Opnunin ber ekki eingöngu vitni um hinn mikla vöxt Hyatt þegar kemur að gæðahótelum í Evrópu heldur styður hún einnig áform okkar um að hasla okkur völl á mörkuðum þar sem svæðisbundnir aðilar ráða ríkjum“.
Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita segir mjög ánægjulegt að geta tilkynnt um opnun fyrsta Hyatt hótelsins á Íslandi. „Vörumerkið er rótgróið og þekkt um allan heim og við sjáum mikil tækifæri fólgin í því að opna hótel í samstarfi við slíkan aðila,“ segir Guðjón.
„Hyatt býr yfir gríðarlegri þekkingu og reynslu þegar kemur að hótelþróun og rekstri sem við munum njóta góðs af í þessu verkefni sem Reitir hafa ákveðið að ýta úr vör. Hótelkeðja af þessari stærðargráðu hefur getu til þess að vekja athygli á Íslandi sem ferðamannastað og auka þannig eftirspurn ferðamanna til landsins. Koma Hyatt mun því í heild hafa jákvæð áhrif á íslenska ferðaþjónustu og hótelmarkaðinn í Reykjavík“.