Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur samþykkt kaup Heimilstækja ehf. á öllu hlutafé í heildversluninni Ásbirni Ólafssyni ehf., en eftirlitið mat sem svo að í kaupunum fælist samruni.
SKE var tilkynnt um fyrirhugaðan samruna Heimilistækja og Ásbjarnar Ólafssonar í byrjun júní á þessu ári. Nú hefur eftirlitið lokið rannsókn og er það mat eftirlitsins að samruninn hindri ekki virka samkeppni og leiði þar af ekki til myndunar á markaðsráðndi stöðu. Því séu ekki forsendur fyrir eftirlitið að aðhafast vegna samrunans.
Heimilistæki náðu samkomulagi um kaupin í lok maí á þessu ári, en samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hljóðar kaupverðið hátt í tvo milljarða króna.
Samstæða Heimilistækja skilaði 480 milljóna króna hagnaði á síðasta ári, samanborið við 377 milljóna hagnað árið 2020. Velta félagsins jókst um 1,3% milli ára og nam 7,3 milljörðum króna.
Innan Heimilstækja-samstæðunnar eru fimm dótturfélög, Tölvulistinn, RL, Byggt og Búið, Att, og Kúnígúnd. Tölvulistinn rekur samnefnda verslun að Suðurlandsbraut 26 í Reykjavík, sem og verslanir í Reykjanesbæ, Akureyri, Selfossi og Egilsstöðum. RL rekur verslunina Rafland að Síðumúla 2-4 í Reykjavík, og selur fyrst og fremst raftæki til heimilisnota.
Þá rekur Kúnígúnd verslun í Kringlunni undir sama nafni og selur að mestu leyti húsbúnaðarvörur, svo sem matarstell, bollastell og ýmsa skrautmuni. Byggt og búið rekur verslun í Kringlunni og selur einnig ýmis konar húsbúnaðarvörur, og þá rekur Att samnefnda tölvuverslun í Kópavogi.
Heildverslunin Ásbjörn Ólafsson ehf. hefur verið í eigu sömu fjölskyldu frá stofnun fyrirtækisins, eða í 85 ár. Félagið var stofnað af Ásbirni Ólafssyni stórkaupmanni árið 1937. Verslunin selur aðallega ýmis konar húsbúnaðarvörur, en félagið er einnig með umboð fyrir fatnað fyrir fyrirtæki í veitingaiðnaði og hestavörur. Félagið var áður umboðs- og dreifingaraðili fyrir matvæli, sælgæti og bílavörur en seldi þann hluta reksturs síns til Danól ehf. árið 2021.