Skel fjárfestingarfélag varð í mars stærsti hluthafi fjölmiðla- og fjarskiptahluta Sýnar með kaupum á 10% hlut í félagin fyrir 564 milljónir króna á genginu 22,57 krónur á hlut.

Skel fjallar stuttlega um fjárfestinguna í Sýn í fjárfestakynningu vegna annars ársfjórðungs sem var birt eftir lokun Kauphallarinnar í dag. Skel segir ákveðin tækifæri vera til staðar í félaginu sem vert sé að gefa frekari gaum.

„Einfalda þarf fjölmiðlahluta rekstrar með áherslu á arðbærar einingar og arðbæra dagskráliði. Annað ætti að leggja af. Arðbærar einingar eiga síðan heima í stærri einingu, hvort sem það er gert með sölu eða kaupum á öðrum slíkum einingum,“ segir í fjárfestakynningunni.

Skel segir að þessar aðgerðir muni stuðla að tvennu. Annars vegar muni það einfalda fyrirtækið og draga úr kostnaði og hins vegar muni það gefa skráðu fyrirtæki og sterku vörumerki frekara svigrúm til vaxtar.

Fjárfestingarfélagið segir einnig að út frá þeim upplýsingum sem Sýn gefi frá sér sé erfitt að átta sig á afkomu einstaka rekstrareininga og fjárfestingarþörf þeirra. Æskilegt væri að bæta úr því.

Greinandi á hlutabréfamarkaði, Alexander Jensen Hjálmarsson hjá Akkur, sagði í samtali við Innherja í vor, að Skel væri mögulega með kaupunum í Sýn að horfa á að leggja grunn að samrunaviðræðum milli Sýnar og sameinuðu félagi Samkaupa og Heimkaupa. Hann nefndi að sameinað fyrirtæki gæti búið til stóran vildarklúbb.

Nýlega stofnaði Skel samstæðuna Dranga utan um Samkaup, Orkuna og Samkaup, sem Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um fyrr í kvöld. Skel segir í téðri fjárfestakynningu Dranga vera „sérstaklega vel í stakk [búna] til ytri vaxtar með kaupum eða sameiningum við önnur smásölufyrirtæki“.

Fjárfesting Skeljar í hlutabréfum Sýnar vakti mikla athygli í vor, ekki síst þar sem Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Skeljar, og eiginkona hans, Ingibjörg Pálmadóttir, áttu á árum áður 365 miðla sem rak Stöð 2, Vísi, Bylgjuna og gaf út Frétta­blaðið. Þau seldu 365 miðla til Sýnar árið 2017 og síðar Torg, út­gáfu­félag Frétta­blaðsins, til Helga Magnús­sonar.