Mótórhjólasali á Akureyri fær lítið í sinn hlut í fjárskiptum vegna skilnaðar en Héraðsdómur Norðurlands eystra hafnaði því í gær að ógilda kaupmála sem hann og fyrrverandi eiginkona hans höfðu gert. Fjórum dögum eftir að kaupmálinn var undirritaður ákvað konan að láta staðar numið í sambandi aðila.
Samkvæmt málsatvikalýsingu kynntist fólkið árið 2009 og gekk í hjúskap 2009. Við upphaf sambúðar átti konan fasteign og fyrirtæki en maðurinn átti engar eignir og aðeins skuldir. Seinna meir seldi konan fasteign sína og keypti aðra stærri, samkvæmt Þjóðskrá er þar á ferð rúmlega 300 fermetra einbýlishús metið á tæpar 79 milljónir króna samkvæmt fasteignamati 2022, sem var fjármögnuð að 80% með eigin fé en 20% með lántöku.
Í málinu lá einnig fyrir að báðir aðilar voru öryrkjar. Konan hafði verið það frá upphafi sambúðar en maðurinn frá árinu 2014. Tekjur hans komu af innflutningi mótórhjóla, þá oftar en ekki í eldri kantinum, sem hann seldi síðan hér heima. Konan hafði aftur á móti tekjur af fyrirtæki sínu. Þau eignuðust ekki börn saman en áttu bæði börn úr fyrri samböndum.
Fasteignin séreign konunnar
Árið 2016 kom til umræðu milli þeirra að gera kaupmála og lágu fyrir drög að honum með athugasemdum. Þær hugmyndir voru síðan dregnar fram að nýju í ársbyrjun 2019 og kaupmálinn undirritaður. Fjórum dögum eftir að samningurinn var undirritaður, og aðeins degi eftir að skjalið var fært í kaupmálabók, sleit konan samvistum við manninn. Samkvæmt honum átti fasteignin meðal annars að vera séreign konunnar.
Bú þeirra var tekið til opinberra skipta skömmu síðar. Samkomulag náðir um fyrirkomulag skipta á sumarbústað, sumarhúsalóðar, íbúð á Spáni, skipti á fyrirtæki auk 27 ökutækja, verkfæra, tækja, varahluta og innbúi. Eftir stóð ágreiningur um einbýlishúsið á Akureyri og tvær bifreiðar sem höfðu verið í eigu konunnar, en við skilnaðinn færðar á nafn sonar hennar, en maðurinn vildi að umræddar eignir kæmu til skipta. Konan krafðist á móti að átta mótorfjól, flest fornhjól, kæmu undir skiptin.
Maðurinn byggði meðal annars á því að kaupmálinn væri ógildir. Hann hefði verið vottaður ranglega og að hann hefði verið blekktur til að gera hann. Í raun hefði þar verið á ferð fjárskiptasamningur klæddur í búning kaupmála en honum hefði aldrei dottið í hug að undirrita slíkan gjörning. Hvað ökutækin varðar þá hefði konan skráð þau á son sinn til að koma í veg fyrir að þau kæmu til skipta.
Konan taldi á móti að rök mannsins væru fjarstæða. Þau hefðu bæði verið í samskiptum við lögmann við gerð kaupmálans og að drög að honum hefðu legið fyrir strax árið 2016. Manninum hefði því allan tíman verið ljóst hvað hann hefði verið að undirrita. Hvað ökutækin tvö varðaði þá hefði sonur hennar annast hana mikið í veikindum hennar. Sjón hennar væri farin að versna og því hefði hún takmörkuð not fyrir þau. Hún hefði að auki skuldað syni sínum og gert upp við hann með því að gefa honum Mercedez Benz bifreið og Harley Davidsson mótorhjól. Fornhjólin átta taldi hún að ættu að koma undir skiptin þar sem þau hefðu verið í eigu mannsins á skiptadegi.
Maðurinn sjálfur rætt skilnað
Í niðurstöðu dómara málsins var ekki fallist á röksemdir mannsins um ógildingu kaupmálans og ekki heldur að honum yrði vikið til hliðar og helmingaskiptareglu beitt. Til að búi yrði skipt til helminga hefði þurft að myndast fjárhagsleg samstaða milli hjóna en því væri ekki til að dreifa í þeirra tilviki. Konan hefði átt umtalsverðar eignir við upphaf sambúðar og ekkert lægi fyrir að maðurinn hefði tekið þátt í fjármögnun og viðhaldi þeirra. Þá hefði hvort hjóna um sig ráðstafað sínum fjármunum eins og þeim lysti.
„Fyrir dómi kannaðist [maðurinn] við að aðilar hafi rætt um gerð kaupmála áður en þau gengu í hjúskap til að tryggja hag varnaraðila sem átti umtalsverðar eignir, á meðan sóknaraðili átti engar. Hann kannaðist einnig við að unnið hafi verið að gerð kaupmála og erfðaskrár í það minnsta frá vormánuðum 2018. Fyrir dómi sagðist hann einnig hafa haft fullan aðgang að netfangi sem aðilar notuðu til samskipta við lögfræðing þann er annaðist gerð kaupmálans. Kvað hann þau bæði hafa notað netfangið jöfnum höndum,“ segir í úrskurðinum.
Enn fremur var því hafnað að ógilda kaupmálann á þeim grunni að maðurinn hefði ekki skilið innihald hans. Þar vó þyngst sú staðreynd að maðurinn hafði krotað athugasemdir inn á kaupmáladrögin árið 2016. Þótt skammur tími hefði liðið frá undirritun hans og þar til skilnaður átti sér stað sagði dómurinn að fyrir lægi að sambandið hefði verið stirt síðustu tvö árin. Því til viðbótar hefði maðurinn viðrað hugmyndir um skilnað um tveimur vikum áður en kaupmálinn var gerður.
„Kaupmálinn var því gerður við þær aðstæður að brugðið gat til beggja vona með hjúskap aðila. Ákvörðun [konunnar] um skilnað kom því ekki eins og þruma úr heiðskíru lofti, heldur einungis um tveimur vikum eftir að [maðurinn] sjálfur orðaði óánægju sína í hjónabandinu við [hana]. [Maðurinn] viðurkenndi fyrir dómi háttsemi af sinni hálfu sem samkvæmt öllum eðlilegum mælikvörðum var til þess fallin að valda trúnaðarbresti á milli aðila, þó hann hafi viljað gera lítið úr því,“ segir í úrskurðinum.
Hvað varðaði ökutækin tvö í eigu sonar konunnar sagði dómurinn að gengið hefði verið frá gjörningnum áður en viðmiðunardagur skipta rann upp. Þrjú af mótorhjólunum átta, sem voru í eigu mannsins, koma aftur á móti undir skiptin þar sem þau voru í eigu mannsins á viðmiðunardegi. Málskostnaður aðila var látinn niður falla.