Verðmöt greiningaraðila á Alvotech eru á breiðu bili sem kann að vera til marks um að óvissan í rekstrinum sé enn töluverð. Hæsta verðmatið stendur nú í 22 dollurum á hlut, eða meira en tvöfalt hærra en útboðsgengi félagsins við skráningu á markað í sumar en það lægsta í 5 dollurum á hlut eða helmingur af útboðsgenginu. Það

Alvotech var tvískráð í Nasdaq kauphöllina í New York og First North markaðinn á Íslandi í júní þar sem útboðsgengið var 10 dollarar á hlut. Gengi bréfa Alvotech tók hins vegar dýfu fljótlega eftir skráninguna og stendur gengi bréfanna nú í 6,6 dollurum á hlut.

Fyrirtækið tilkynnti í byrjun september að FDA hefði gert athugsemdir við verksmiðju félagsins hér á landi sem þyrfti að leysa úr áður en það veitti framleiðsluleyfi á fyrsta lyfi félagsins í Bandarikjunum sem til stendur að gefa út í júlí á næsta ári.

Í kjölfar tilkynningarnnir lækkaði Andrew Baum, greiningaraðili Citi, verðmat sitt á Alvotech úr 12 dollurum á hlut í 5 dollara á hlut eða um 58% og mælti með sölu á bréfum í félaginu. Alvotech þyrfti að endurheimta traust fjárfesta og útskýra betur afstöðu FDA gagnvart félaginu. Hætt væri við að áfangagreiðslum frá Teva seinki sem gæti seinkað því að félaginu takist að draga úr skuldsetningu félagsins.

Þann 8. september sátu stjórnendur Alvotech undir svörum á líftækniráðstefnu Citi, þar sem Andrew Baum, greinandi Citi, spurði ítrekað út í athugasemdir FDA og hvort raunhæft væri fyrir Alvotech að bregðast við í tæka tíð þannig að útgáfu lyfsins seinkaði ekki. Stjórnendur Alvotech töldu að svo væri. Áfram væri stefnt á útgáfu í Bandaríkjunum þann 1. júlí á næsta ári.

Mark Levick, forstjóri Alvotech, sagði að margar af athugasemdum FDA tengdust því að Alvotech væri nýtt fyrirtæki fyrir lyfjaeftirlitinu sem leyst yrði úr. Þá benti Róbert Wessman, stjórnarformaður og stofnandi Alvotech, á að gengi áformin eftir hefði Alvotech að líkindum minnst tólf mánaða forskot áður en annar framleiðandi kæmi á markað með útskipanlega hærri styrkleikaútgáfu af Humira, sem væri umtalsverður tími. Það yrði líklega Amgen á síðari hluta ársins 2024.

Greiningaraðili Northland er hins vegar mun bjartsýnni en greinandi Citi og gaf út í kjölfar tilkynningar Alvotech um athugsemdir FDA að verðmat sitt á að Alvotech væri óbreytt í 22 dollurum á hlut.

Að mati greiningaraðila Northland fæli lækkun á gengi bréfa Alvotech í sér kauptækifæri. Enda hafi Alvotech gefið út að félagið hygðist leysa úr athugasemdum FDA í tæka tíð áður en sala hefjist á líftæknihliðstæðu Humira í Bandaríkjunum í júlí á næsta ári.

Þá gaf Morgan Stanley einnig út sitt fyrsta verðmat á Alvotech í september þar sem Alvotech var gefin jöfn vigt, með verðmatsgengið 10 dollarar á hlut. Morgan Stanley segir að viðskiptamódel Alvotech gæti skilað sér í arðbærum rekstri. Í kynningum í aðdraganda skráningarinnar sögðu stjórnendur Alvotech að stefnt væri á að árið 2025 yrði veltan yfir 800 milljónum dollara og aðlagað rekstrarhagnaðarhlutfallið verði yfir 60%.

Hins vegar er að mati Morgan Stanley töluverð óvissa. Sér í lagi í hvað varðar útgáfu líftæknihliðstæðu Humira í júlí 2023. Það felist nokkur samþjöppunaráhætta fyrir félagið að stóla í svo miklum mæli á eitt lyf.

Nánar er fjallað er um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út 6. október.