Ráðstefna hjá Alþjóðadeild fótaaðgerðafræðinga fer nú fram í Hörpu en hún hófst í dag og stendur yfir til 6. mars. Búist er við 330 einstaklingum frá 31 landi og verða bæði fyrirlestrar og vinnustofur í boði fyrir þátttakendur.

Jóna Björg Ólafsdóttir, fótaaðgerðafræðingur, segir ráðstefnuna mjög spennandi fyrir Félag íslenskra fótaaðgerðafræðinga og virki sem nokkurs konar lyftistöng. Félagið tekur þátt í ráðstefnunni en verður þó ekki með fyrirlestra.

„Það átti að halda þessa ráðstefnu í Jerúsalem, en af augljósum ástæðum var skyndilega ákveðið að færa hana til Íslands. Ráðstefnan er líka styrkt meðal annars af Kerecis því þeir sjá auðvitað svakaleg tækifæri á meðal fótaaðgerðafræðinga.“

Jóna Björg segir að félagið vilji einnig nota ráðstefnuna til að vekja athygli á stöðu fótaaðgerðafræðinga á Íslandi sem hafa lengi barist fyrir því að koma náminu upp á háskólastig en námið er mjög frábrugðið á milli landa og heimsálfa.

„Á Íslandi er námið aðeins á framhaldsskólastigi og það sem við erum svo ósátt með er að við komumst hvergi með menntunina okkar. Þó að ég sé útskrifaður fótaaðgerðafræðingur með leyfi frá landlækni og búin að starfa við fagið í átta ár, ef ég ætla að ná mér í framhaldsmenntun erlendis þá þarf ég að byrja alveg frá grunni. Þetta leiðir til þess að það verður minni framþróun í okkar starfi.“

Fótaaðgerðafræði er kennt á framhaldsskólastigi og fer námið fram í Keili. Að loknu námi öðlast nemendur löggildingu hér á landi til að kalla sig fótaaðgerðafræðing að fenginni umsögn landlæknis og Félags íslenskra fótaaðgerðafræðinga.

„Það var byrjað að kenna þetta árið 2008 en námið fór inn í einkageirann strax og hefur aldrei verið ríkisstyrkt á Íslandi,“ segir Jóna Björg og bætir við að námið kosti í dag tvær og hálfa milljón.

Íslenskir fótaaðgerðafræðingar sem klára námið á Íslandi geta þó unnið á Íslandi, í Danmörku, Noregi og Svíþjóð en hvergi annars staðar. Jóna segir stöðuna alvarlega í ljósi þess hve mikil þörf sé á fótaaðgerðafræðingum.

„Sykursýki er til dæmis að verða eitt stærsta alheimsvandamál og við erum nánast hætt að tala um aldurstengda sykursýki vegna þess hve mikil fjölgunin er. Þar vinna fótaaðgerðafræðingar til dæmis algjöra grunnvinnu þegar kemur að því að forða meinum og meinamyndun fyrir neðan ökkla. Það sem skiptir mestu máli fyrir sykursjúkt fólk er að halda fótunum og húðinni og missa ekki útlimi.“

Jóna Björg segir að með því að koma náminu upp á háskólastig myndu íslenskir fótaaðgerðafræðingar fá mun meiri áheyrn innan heilbrigðiskerfisins og fengju þannig greiðari leið inn á heilsugæsluna, spítala og fleiri staði.