„Það skiptir ótrúlega miklu máli að efla fjármálalæsi,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, á fundi Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) um fjármálavit ungs fólks sem haldin var í gær í Veröld – Húsi Vigdísar.
Segja má að þetta hafi verið rauði þráðurinn í skilaboðum flestra framsögumanna og þeirra sem tóku þátt í pallborði á fundinum.
Snýr að jöfnum tækifærum fyrir börn og unglinga
Áslaug Arna sagði að fjármálalæsi skipti mjög miklu máli í þeim stafræna heimi sem við lifum í dag þar sem er svo auðvelt að stofna til viðskiptasambanda og skulda. Það sé mjög mikilvægt að fólk hafi nægilegt fjármálalæsi til þess að vita hvað það er að gera þegar það tekur fjármálalegar ákvarðanir.
„Fjármálalæsi er ekki bara getan til að fjalla um peninga og vita um hvað þeir snúast heldur að vita meira um og skilja sín eigin fjármál og vera hæf til þess að taka góðar ákvarðanir. Þetta snýst líka um að skilja hvað það er að vera þátttakandi í samfélaginu og skilja samfélagsumræðu eins og t.d. um verðbólgu og vexti og forsenda þess að taka þátt í samfélaginu,“ sagði Áslaug Arna.
„Einn mikilvægasti þátturinn í að efla fjármálalæsi í skólum eru jöfn tækifæri fyrir börn og unglinga. Það er ekki sjálfsagt að fólk læri þetta af foreldrum sínum og félagsleg staða foreldra á ekki að fá að ráða því hvort að ungt fólk komi út í lífið læst á fjármál eða ekki.“
Sameiginlegt hagsmunamál þjóðarinnar
Einn framsögumanna var Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Ásgeir tók undir orð Áslaugar Örnu og sagði mikilvægt að fjármálalæsi sé tekið inn í námskrá enda séu það sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar að hér sé gott fjármálalæsi.
„Við erum á þeim stað að það veltur á foreldrum hvað börn læra um fjármál sem er óheppilegt því það leiðir til ójöfnuðar í efnahagslífinu.“
Ásgeir sagði að þekking á fjármálum skipti mjög miklu máli varðandi hvaða tækifæri fólk hefur til að ná árangri í lífinu.
„Það skiptir t.d. mjög miklu máli að ungt fólki átti sig á mikilvægi þess að byrja að spara strax og gera áætlanir um framtíðina því það mun skapa ákveðið frelsi í fjármálum síðar. Lykillinn að frelsi í fjármálum er að maður viti hvað maður er að gera.“
Hann sagði einnig að aukið fjármálalæsi myndi hjálpa Seðlabankanum í baráttunni við verðbólguna.
„Þegar við hækkum vexti viljum við að fólk bregðist við og spari. Það eru beinir hagsmunir fyrir Seðlabankann að fólk geti reiknað vexti og áttað sig á því að með því að spara þegar vextir séu háir og fresta neyslu geti það í staðinn neytt meira seinna í framtíðinni.“
Hrunið hafi verið eins og risastóra kennslustund í fjármálalæsi.
„Við höfum ákveðnar skyldur gagnvart ungum kynslóðum að þær endurtaki ekki okkar mistök.“
Gott fjármálalæsi dragi úr líkum á slíku.