Skráð atvinnuleysi var 3,3% í júní og minnkaði um 0,6 prósentur frá því í maí síðastliðnum þegar það var 3,9%. Skráð atvinnuleysi hefur ekki verið minna frá því í mars 2019. Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi verði á bilinu 3,1%-3,4% í júlí
Að meðaltali voru 6.675 atvinnulausir í júní, en þeim fækkaði að meðaltali um 1.042 á milli mánaða. Atvinnulausum fækkaði í öllum atvinnugreinum frá lokum maí en mest var hlutfallsleg fækkun atvinnulausra í ferðatengdum atvinnugreinum.
Alls höfðu 2.395 verið án atvinnu í meira en 12 mánuði í lok júní og fækkaði um 318 frá maí. Til samanburðar var fjöldinn 5.818 í júnílok 2021.
Í skýrslu Vinnumálastofnunar kemur fram að alls staðar á landinu dró úr atvinnuleysi í júní en mest hlutfallslega á Austurlandi, Norðurlandi eystra og Vestfjörðum. Atvinnuleysi á landinu var minnst á Norðurlandi vestra eða um 0,9%, 1,4% á Vestfjörðum og 1,5% á Vesturlandi sem og á Austurlandi.
Atvinnuleysi var mest á Suðurnesjum í júní eða 5,8% og minnkaði úr 6,6% í maí. Næst mest var atvinnuleysið 3,7% á höfuðborgarsvæðinu og minnkaði úr 4,2% í maí.