Skráð atvinnuleysi mældist 4,9% í október sem er 0,1 prósentu lækkun frá septembermánuði þegar það var 5,0%. Í skýrslu Vinnumálastofnunar kemur fram að stofnunin spáir því að atvinnuleysi muni lítið breytast eða aukast lítilsháttar í nóvember vegna árstíðarsveiflu og verða á bilinu 5,0% til 5,3%.
Atvinnulausir voru alls 10.083 í lok október. Atvinnulausum fækkaði að meðaltali um 428 á milli mánaða, þar af fækkaði þeim um 402 á höfuðborgarsvæðinu.
Atvinnuleysi var mest á Suðurnesjum eða 9,2%. Þar fækkaði atvinnulausum um 47 frá fyrri mánuði en vegna árstíðarsveiflu á vinnuafli reiknast hækkun um 0,1 prósentustig. Næst mest var atvinnuleysið á höfuðborgarsvæðinu þar sem það mældist 5,2%, samanborið við 5,4% í september.
Alls höfðu 4.252 atvinnuleitendur verið án atvinnu í meira en 12 mánuði í lok október og fækkaði um 346 frá september. Hins vegar voru þeir 3.614 í októberlok 2020.
Skráð atvinnuleysi á síðustu tveimur árum. Mynd tekin úr skýrslu Vinnumálastofnunar.