Auknar líkur eru á leiðréttingu íbúðaverðs. Deilt er um hvort að leiðréttingunni muni fylgja nafnverðs- eða raunverðslækkanir. Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka telur ólíklegt að íbúðaverð lækki að nafnvirði til langs tíma.

„Það er mikil eftirspurn á markaðnum og vextir munu að öllum líkindum ekki hækka meira í bili ef allt gengur upp. Því teljum við að verð sé ekki að fara lækka að nafnvirði til lengri tíma. Þó er auðvitað ekkert útilokað að það lækki.“

Bergþóra segir að í venjulegu árferði fylgist kaupmáttur launa og íbúðaverð. Nú á undanförnum tveimur árum hafi íbúðaverð hækkað meira en kaupmáttur launa, líkt og á árunum 2016-17, sem gerir það að verkum að erfiðara verður að komast inn á markaðinn nú með hærri vöxtum. Hún segir þetta ósjálfbæra þróun sem gangi ekki upp til lengri tíma.

„Einn daginn hljótum við að nálgast ákveðin þolmörk varðandi hækkun íbúðaverðs umfram laun. Vissulega skipta aðrir þættir einnig miklu máli, til að mynda vaxtaumhverfið. Markaðurinn fór á flug þegar vextir lækkuðu en með talsvert hærri vöxtum er íbúðamarkaður að kólna mjög hratt. Við héldum að hann myndi hægja á sér jafnt og þétt, en hann gerði það í raun á tveimur mánuðum. Það er vissulega minni umsvif á sumrin, en samt sem áður er þetta mjög hröð kólnun.“

Fjallað er um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið.