Hjónin Birgir Bieltvedt og Eygló Björk Kjartansdóttir hafa keypt 30% hlut hjónanna Sólveigar Eiríksdóttur og Elíasar Guðmundssonar í veitingastaðakeðjunni Gló. Fréttablaðið greinir frá þessu.
Að sögn Elíasar var samið um það, þegar veitingastaðurinn fór í útrás til Danmerkur árið 2017, að Birgir og Eygló myndu kaupa þau út hægt og rólega. „Við höfum verið á hlaupum lengi og kominn tími til að slaka á. Félagið er komið i ágætis horf og tækifæri er fyrir nýja aðila til að taka fyrirtækið á næsta stig,“ sagði Elías í samtali við Fréttablaðið.
Sólveig, sem er stofnandi veitingastaðarins, mun starfa sem ráðgjafi hjá Gló fram til júlí 2021.
Birgir og Eygló keyptu upphaflega 50% hlut í Gló árið 2014 í gegnum fjárfestingafélagið Eyju og að sögn Elíasar eignaðist Eyja meirihluta í Gló árið 2017.