Greining Íslandsbanka spáir því að verðbólga muni aukast talsvert á haustmánuðum og mælast 4,5-4,6% frá september til nóvember. Þetta kemur fram í nýrri verðbólguspá bankans þar sem verðbólguhorfum er lýst sem miklu áhyggjuefni.

Greiningardeildin spáir því að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,2% í ágúst sem hefði för með sér að ársverðbólga myndi aukast úr 4,0% í 4,1%. Hagstofan birtir verðbólgutölur þann 28. ágúst næstkomandi.

„Í spánni er það húsnæðisliðurinn sem skýrir mánaðarhækkunina að mestu. Einnig vegast á útsölulok annars vegar og lækkun flugverðs hins vegar,“ segir í grein á vef Íslandsbanka.

Greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir að vísitalan muni hækka um 0,1% í september og verðbólga fari þá upp í 4,5%. Bráðabirgðaspá bankans gerir ráð fyrir að verðbólga verði 4,5% í október og 4,6% í nóvember.

Einskiptisliðir að detta út

Meðal þátta sem stuðla að aukinni verðbólgu er að einskiptisliðir sem leiddu til lækkunar á vísitölunni fyrir ári síðan detta út úr verðbólgumælingunni með haustinu. Niðurfelling háskólagjalda í nokkrum háskólum detta út úr mælingunni í ágúst og gjaldfrjálsar skólamáltíðir detta út í september.

„Niðurfelling háskólagjalda í nokkrum háskólum er sá einskiptisliður sem dettur út nú í ágúst en liðurinn lækkaði um 21% í fyrra.

Það sem vegur á móti er að verðhækkanir í ágúst á helstu liðum VNV eru minni en oft áður, sterkari króna á líklega sinn þátt í því. Ef spá okkar gengur eftir mun verðbólga því einungis aukast í 4,1% þrátt fyrir að títtnefndur einskiptisliður sé að detta út úr mælingunni.“

Bent er á að peningastefnunefnd Seðlabankans muni koma saman í byrjun næstu viku og birta ákvörðun sína um stýrivexti miðvikudaginn 20. ágúst.