Tölvuþrjótar stálu rafmyntum að andvirði 570 milljónum dala, eða sem nemur 81 milljarði króna í gær, af Binance, stærstu rafmyntakauphöll heims. Netárásin var miðuð að BSC Token Hub, brú á milli tveggja Binance-kerfa. Financial Times greinir frá.
Binance taldi upphaflega að andvirði stolnu rafmyntanna væri um 100-110 milljónum dala. Rannsókn kauphallarinnar leiddi hins vegar í ljós að tölvuþrjótarnir komust yfir 2 milljónir að nafnvirði af BNB, rafmyntinni sem Binance gefur út sjálft, en markaðsvirði einnar BNB myntar nemur 281 dal. Viðskipti með BNB voru stöðvuð í rúmlega átta klukkutíma.
Changpeng Zhao, forstjóri Binance, lýsti því yfir á samfélagsmiðlum að kauphöllin væri búin að koma böndum á málið og fullvissaði notendur um að sjóðir þeirra væru í öruggum höndum.
Öryggisdeild Bianance og aðrir rekstraraðilar rafmyntakerfa hafa unnið að því að frysta stolnu eignirnar. Talsmaður Binance sagði seinnipartinn í dag að kauphöllin ætti enn eftir að endurheimta rafmyntir af fjárhæð 100 milljóna dala.