Uppgjör Kviku banka var umfram væntingar samkvæmt greiningarfyrirtækinu Akkur. Afkoman einkenndist af sterkum þóknanatekjum, hóflegum rekstrarkostnaði og jákvæðum öðrum tekjum, þrátt fyrir að vaxtatekjur hafi verið undir uppfærðri spá.
Hreinar þóknanatekjur Kviku voru langt umfram spár Akkurs og skýrist það að mestu af góðri framvindu í fjárfestingabankastarfsemi og í bresku einingunni.
Nú eru 12 mánaða hlaupandi þóknanatekjur komnar á sama stig og árið 2022, sem var metár í sögu bankans.
Akkur telur að þróunin gæti haldið áfram, þó að eignastýring sé enn undir sínum bestu árum.
Rekstrarkostnaður var tæplega 70 milljónum króna undir væntingum Akkurs. Hann jókst um 9,1% frá sama tíma í fyrra, en þar sem tekjur jukust enn meira lækkaði kostnaðarhlutfallið töluvert.
Hagnaður fyrir skatta nam 2.025 milljónum króna á fjórðungnum, sem er 245 milljónum umfram spá Akkurs.
Hreinn hagnaður af áframhaldandi starfsemi var 1.439 milljónir, 175 milljónum yfir væntingum. Undirliggjandi hagnaður fyrir skatta var 1.916 milljónir, 79 milljónum yfir spá.
Hlaupandi 12 mánaða undirliggjandi hagnaður er nú rúmlega 6 milljarðar króna, samanborið við 5,2 milljarða árið 2024, og Akkur spáir að hann verði um 7,6 milljarðar fyrir árið 2025.
Vaxtatekjur undir uppfærðri spá
Vaxtatekjur Kviku námu 2.962 milljónum króna, eða 308 milljónum undir spá Akkurs. Fyrirtækið tekur þó fram að ástæðan sé að það hafi hækkað spána töluvert í júlí eftir frétt um góða eftirspurn eftir íbúðalánum.
Sú túlkun reyndist of bjartsýn, þar sem 20 milljarða upphæðin sem nefnd var í frétt átti við um umsóknir, ekki þegar veitt lán. Þrátt fyrir þetta voru vaxtatekjur sögulega sterkar.
Eigið fé Kviku er um 7 milljörðum króna umfram eiginfjármarkmið bankans, eða um 9% af markaðsvirði.
Það er 13 milljörðum umfram lágmarkskröfur, sem samsvarar um 16% af markaðsvirði.
Miðað við dagslokagengi í dag er markaðsvirði bankans 244 milljarðar króna, að teknu tilliti til eigin bréfa. Það jafngildir 18,0 sinnum hagnaði síðustu tólf mánaða eða um 16,7 sinnum áætlaðum hagnaði 2025. P/B-hlutfallið er 1,24 og P/NTA 1,82.
Akkur telur að niðurstaðan undirstriki sterka stöðu Kviku og að ekkert bendi til þess að endurskoða þurfi spár næstu missera.
Með sterkan kjarnarekstur, vaxandi þóknanatekjur og hóflegan kostnað sé bankinn vel í stakk búinn til að halda áfram vaxtarferlinu.