Rekstur framleiðslufyrirtækisins Pegasus Productions gekk vel í fyrra, ekki síst vegna mikillar velgengni kvikmyndarinnar Leynilöggan sem félagið ákvað að ráðast loks í framleiðslu á þegar önnur verkefni þurrkuðust upp í heimsfaraldrinum.
Framkvæmdastjóri Pegasus, Elli Cassata, líkir rekstri framleiðslufyrirtækis á borð við Pegasus við bárujárnsplötu og á þar við miklar sveiflur sem erfitt geti verið að sjá fyrir eða stjórna. „Þetta er mikið upp og niður, góð ár og slæm ár, en ef við lítum til baka yfir síðustu kannski 10 ár þá er reksturinn alltaf einhvern veginn í fínum málum til lengri tíma.“
Það sem helst drífur verkefnafjölda og -stöðu eins og Elli lýsir því er sögusvið þeirra verkefna sem verið er að vinna hverju sinni. Þegar erlendir aðilar ráðast í stór kvikmyndaverkefni hér á landi skera reynsla, orðspor og meðmæli manna á milli gjarnan úr um hvaða innlendi samstarfsaðili verður fyrir valinu og stór og ábatasöm verkefni eiga það því til að koma í hrönnum.
„Ef framleiðendur hafa ekki beina reynslu af því að starfa með framleiðslufyrirtæki hér á landi hafa þeir oft heyrt eitthvað frá vinum og kunningjum innan bransans og fara þá gjarnan eftir því.“
Meðvitað haldið sér litlum og sveigjanlegum
Pegasus á sér yfir 30 ára sögu en það hefur verið meðvituð ákvörðun að halda grunnstarfseminni tiltölulega smárri í sniðum og yfirbyggingu í lágmarki. Lykillinn að velgengni eins og þau hjá Pegasus hafi litið á það sé að hugsa vel um reksturinn og vera lítill en sveigjanlegur og geta stækkað eftir þörfum þegar svo ber undir.
„2020 var frábært ár hjá okkur, en við sáum það ekki fyrr en í lok apríl í hvað stefndi. Þegar Covid kom þarna í byrjun mars fór allt í steik og enginn vissi hvað myndi gerast næst. Síðan bara rættist aldeilis úr árinu og þegar upp var staðið var 2020 metár frá stofnun félagsins hvað veltu varðar.“ Þegar faraldurinn hófst greip um sig mikil óvissa og Pegasus stóð frammi fyrir algeru verkefnaleysi.
„Við sátum bara þarna í störukeppni og veltum því fyrir okkur hvað við gætum gert.“ Þá kviknaði hugmyndin hjá Ella og Lilju Ósk Snorradóttur framleiðanda um að láta loksins verða af Leynilöggunni, sem hafði átt sér yfir áratugalangan aðdraganda.
Myndin er byggð á kvikmyndunum Die Hard, Last Boy Scout og Tango & Cash og þegar hafði verið skrifað handrit, en það var endurskrifað í takt við nútímann að sögn Ella. „Það voru bara hlutir í þessu sem þurfti að breyta. Samfélagið hefur breyst. Sumt segirðu ekki og gerir ekki í dag.“
Viðtalið birtist í lengri útgáfu í sérblaðinu Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, sem fylgdi Viðskiptablaðinu í síðustu viku. Blaðið er opið öllum og hægt er að nálgast það hér.