Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti á síðasta fundi sínum í desember að hækka lánalínu Carbfix um fimm milljarða króna.
Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix, ásamt Erling Tómassyni, fjármálastjóra Carbfix, mættu á fund stjórnarinnar og kynntu tillögu um fjármögnun og hámörkun verðmætasköpunar Carbfix.
Lánalínan ásamt, ásamt núverandi lánalínum Carbfix, gilda út árið 2026.
Tillagan var borin upp og samþykkt með atkvæðum Gylfa Magnússonar, Völu Val, Þórðar Gunnarssonar, Söru Bjargar Sigurðardóttur og Valgarðs Lyngdal Jónssonar.
Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sat hjá og lagði fram eftirfarandi bókun:
„Fram kom í umræðum að hækkun lánalínunnar var ráðgerð í 5 ára fjárhagsáætlun Orkuveitunnar en áætlaður endurgreiðslutími lánalínunnar hafi þó færst aftur. Gert var ráð fyrir að lánalínan yrði endurgreidd árið 2027. Tilurð lánalínunnar var aðlögun áforma Carbfix að nýjum aðstæðum en áður en lengra er haldið telur undirrituð að Orkuveitan og stjórn hennar þurfi að setja sér ramma utan um framlög sín til Carbfix verði þau í formi láns- eða hlutafjár og sá rammi þarf að vera hluti af langtímastefnumótun Orkuveitunnar. Í upphafi skyldi endinn skoða,“ segir í bókun Ragnhildar.
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gær er Carbfix að skoða möguleikann á uppbyggingu og rekstri svokallaðrar Coda-stöðvar í Ölfusi.
Bæjarráð Ölfuss er jákvætt og lýsti yfir stuðningi við viljayfirlýsingu um úttekt á forsendum uppbyggingar og reksturs slíkrar stöðvar.
„Verkefnið felur í sér móttöku, niðurdælingu og bindingu á CO2 með nýtingu Carbfix-tækninnar, sem byggir á náttúrulegum ferlum til varanlegrar bindingar koldíoxíðs í bergi,” segir í fundargerð bæjarráðs Ölfuss.