Stjórn Orku­veitu Reykja­víkur samþykkti á síðasta fundi sínum í desember að hækka lána­línu Car­b­fix um fimm milljarða króna.

Edda Sif Pind Ara­dóttir, fram­kvæmdastýra Car­b­fix, ásamt Er­ling Tómas­syni, fjár­mála­stjóra Car­b­fix, mættu á fund stjórnarinnar og kynntu til­lögu um fjár­mögnun og hámörkun verðmæta­sköpunar Car­b­fix.

Lána­línan ásamt, ásamt núverandi lána­línum Car­b­fix, gilda út árið 2026.

Til­lagan var borin upp og samþykkt með at­kvæðum Gylfa Magnús­sonar, Völu Val­­, Þórðar Gunnars­sonar, Söru Bjargar Sigurðar­dóttur og Val­garðs Lyng­dal Jóns­sonar.

Ragn­hildur Alda María Vil­hjálms­dóttir, borgar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokksins, sat hjá og lagði fram eftir­farandi bókun:

„Fram kom í um­ræðum að hækkun lána­línunnar var ráð­gerð í 5 ára fjár­hagsáætlun Orku­veitunnar en áætlaður endur­greiðslutími lána­línunnar hafi þó færst aftur. Gert var ráð fyrir að lána­línan yrði endur­greidd árið 2027. Til­urð lána­línunnar var aðlögun áforma Car­b­fix að nýjum aðstæðum en áður en lengra er haldið telur undir­rituð að Orku­veitan og stjórn hennar þurfi að setja sér ramma utan um fram­lög sín til Car­b­fix verði þau í formi láns- eða hluta­fjár og sá rammi þarf að vera hluti af langtíma­stefnumótun Orku­veitunnar. Í upp­hafi skyldi endinn skoða,“ segir í bókun Ragnhildar.

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gær er Carbfix að skoða möguleikann á uppbyggingu og rekstri svokallaðrar Coda-stöðvar í Ölfusi.

Bæjarráð Ölfuss er jákvætt og lýsti yfir stuðningi við viljayfirlýsingu um úttekt á forsendum uppbyggingar og reksturs slíkrar stöðvar.

„Verkefnið felur í sér móttöku, niðurdælingu og bindingu á CO2 með nýtingu Carbfix-tækninnar, sem byggir á náttúrulegum ferlum til varanlegrar bindingar koldíoxíðs í bergi,” segir í fundargerð bæjarráðs Ölfuss.