Ríkisstjórnin hyggst stórauka veiðigjaldið. SFS og bæjarráð á landsbyggðinni segja hækkunin muni hafa gríðarlega neikvæð áhrif.

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra og Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra kynntu áformin á blaðamannafundi rétt í þessu.

Hanna Katrín sagði að frumvarpið væri „réttlætismál“ og sagði hún að það hefði verið hægt að sækja um tíu milljörðum meira í veiðigjöld með því að breyta mati á aflaverðmæti fyr­ir bæði botn­fisk og upp­sjáv­ar­fisk.

Samsvarar það um tvöföldun á veiðigjaldi.

Daði Már sagði að „aflaverðmæti hafi verið vanmetið í veiðigjaldinu”. Í þessu samhengi vísaði Daði til greiningar á verðum í Noregi, sem var í öllum tilfellum hærra en verð í beinum viðskiptum hér á Íslandi.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og bæjarráð sveitarfélaga á landsbyggðinni hafa lýst þungum áhyggjum yfir þessum áformum sem þau telja muni hafa skaðleg áhrif á samfélagið, sérstaklega á landsbyggðinni.​

Í janúar lýsti bæjarráð Fjarðabyggðar yfir þungum áhyggjum yfir yfirvofandi hækkun á veiðigjöldum, einkum á uppsjávarveiðar, ásamt þeim áhrifum sem boðuð aukning á kvóta til strandveiða kemur til með að hafa á aðra kvóta.

Bæjarráðið sagði hækkun veiðigjalda muni auka kostnað útgerða á Austfjörðum ofan á umtalsverðar hækkanir sem urðu um áramótin og veikja þannig fjárhagslega getu þeirra.

Þá komi hækkanir á veiðigjöldum ofan á óstöðugleika sem þegar hafi ríkt í greininni, m.a. vegna loðnubrests, skerðinga á raforku og óvissu um markaðsaðstæður.

Samkvæmt SFS hefur auðlindagjaldtaka í sjávarútvegi tekið breytingum frá árinu 2004, oftast með það að markmiði að hækka gjöldin.

Hingað til hefur gjaldtakan miðast við hlutfall af afkomu, þar sem raunverulegar tekjur og gjöld veiða eru tekin til greina. Ríkið tekur nú þegar þriðjung af þessari afkomu í veiðigjald.​

Nýja fyrirkomulagið felur í sér að tekjur af veiðum verði reiknaðar út frá verði á norskum uppboðsmörkuðum fyrir uppsjávarfisk og íslenskum uppboðsmörkuðum fyrir botnfisk.

SFS bendir á að þetta viðmið taki ekki tillit til samþættrar virðiskeðju íslensks sjávarútvegs, sem hefur verið lykilþáttur í verðmætasköpun og samkeppnishæfni greinarinnar.​

Verði þessi breyting að lögum telja SFS að áhrifin verði neikvæð.

Fyrirtækin muni þurfa að aðlaga sig að nýjum forsendum gjaldtökunnar, sem gæti leitt til þess að fiskur verði fluttur óunninn úr landi til vinnslu í láglaunalöndum eins og Póllandi og Kína.

Þetta myndi draga úr verðmætasköpun hér á landi, fækka störfum í fiskvinnslu og hafa neikvæð áhrif á tengda þjónustu og iðnað. Sveitarfélög og ríkissjóður myndu einnig verða fyrir tekjutapi vegna minni skatttekna frá sjávarútvegsfyrirtækjum og tengdum aðilum.​

SFS gagnrýna einnig að þessi áform ríkisstjórnarinnar séu í andstöðu við fyrri áherslur um aukna verðmætasköpun í sjávarútvegi.

Þeir benda á að aðgerðir eins og hækkun kolefnisgjalds, breytingar á veiðum og vinnslu, auk strangari reglna um eignarhald, geti haft neikvæð áhrif á greinina.

Þetta kemur á sama tíma og óvissa ríkir á erlendum mörkuðum vegna breyttrar heimsmyndar og fyrirsjáanlegra efnahagslegra þrenginga á helstu mörkuðum fyrir íslenskar sjávarafurðir.​

Til viðbótar við þessa gagnrýni hafa ýmsir aðilar tjáð sig um hækkun veiðigjalda. Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, hefur lýst yfir mikilli sátt innan ríkisstjórnarinnar um hækkun veiðigjalda og telur það mikilvægt skref í átt að sanngjarnri auðlindagjaldtöku.