Á meðan starfsemi margra fyrirtækja dróst mikið saman eða lagðist jafnvel alveg af meðan á heimsfaraldrinum stóð stórjukust umsvif heildog smásöluverslunarinnar Rekstrarvara og reyndi á starfsfólkið sem aldrei fyrr.
Veltan fór úr rúmum 2,5 milljörðum í vel yfir 4,3 á fyrsta ári faraldursins, og skreið yfir 4,5 milljarða í fyrra. Sigurlaug Þóra Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri félagsins, segir árið hafa verið mikla áskorun en á sama tíma afar lærdómsrík reynsla.
„Eitt var að þurfa að bregðast við og aðlagast faraldrinum og sóttvarnareglum í tengslum við hann eins og aðrar verslanir, með öllum þeim hólfaskiptingum og einangrun og öðru sem því fylgdi. Ofan á það bættist svo mesta veltuaukning frá upphafi. Það var náttúrulega rosaleg vöntun á markaðnum á þeim vörum sem við erum að flytja inn.“
Sprenging með sumt en samdráttur með annað
Auk hreinlætis- og sótthreinsivara heldur verslunin úti sérstöku heilbrigðissviði með starfandi hjúkrunarfræðing og sjúkraliða auk sérhæfðra sölumanna fyrir hjúkrunarvörur enda Landspítalinn einn af stærstu viðskiptavinum fyrirtækisins, jafnvel þegar ekki geisar heimsfaraldur.
Ekki jókst þó sala í öllum flokkum vegna ástandsins þótt veltan hafi aukist heilt yfir. Meira að segja á heilbrigðissviðinu voru vörur eins og aðgerðapakkar sem spítalarnir nota sem lítið sem ekkert seldist af á meðan öllum aðgerðum var frestað.
Það var því ekki aðeins stóraukin velta í umhverfi fordæmalausra og á köflum síbreytilegra sóttvarnartakmarkana sem reyndi á fyrirtækið og starfsfólk þess, heldur flæktist birgðastjórnunin til muna.
Nýir viðskiptavinir komnir til að vera
Ótrúlegt en satt segir Sigurlaug að þrátt fyrir að faraldurinn hafi verið hér um bil liðinn undir lok á þessu ári sé ekki útlit fyrir að velta muni dragast saman milli ára.
„Árið fór mjög vel af stað og lítur bara mjög vel út. Við erum alveg að ná að halda dampi og erum rosalega ánægð, enda meðvituð um að þetta eru ekkert venjulegar tölur sem við erum að bera okkur saman við frá í fyrra. Við gerum alveg ráð fyrir að það verði minni aukning núna en þá, en við erum alls ekki að horfa fram á samdrátt.“
Fyrsta bylgja faraldursins kom eðli máls samkvæmt öllum að óvörum og vissar vörur tæmdust úr búðarhillum um allan heim, þar með talið hjá Rekstrarvörum. Allt kapp var hins vegar lagt á að í þeirri næstu yrði verslunin við öllu búin, og það gekk eftir ólíkt mörgum helstu samkeppnisaðilum eins og Sigurlaug lýsir því.
„Þegar næsta bylgja kom var allt til, og það var eitthvað sem við fundum að við höfðum umfram aðra. Við vorum viðbúin og við áttum vörurnar. Þegar fyrirtæki sem höfðu gert sín innkaup annars staðar áttuðu sig á hvernig í pottinn var búið færðu mörg þeirra viðskipti sín yfir til okkar.“
Það eru þau fyrirtæki og viðskipti sem Sigurlaug telur að muni halda veltu búðarinnar í svipuðum hæðum áfram og hún náði í faraldrinum. „Við höfum verið að sjá það í ár að þessir nýju viðskiptavinir eru að halda sér.“
Viðtalið birtist í lengri útgáfu í sérblaðinu Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, sem fylgdi Viðskiptablaðinu í síðustu viku. Blaðið er opið öllum og hægt er að nálgast það hér.