Viðskiptablaðið hefur á undanförnum vikum fjallað ítarlega um málefni styrktarsjóðsins Sonja Foundation sem athafnakonan Sonja de Zorrilla ánafnaði auði sínum til. Fram hefur komið að megnið af þeim stykjum sem veittir hafi verið úr sjóðnum hafi að mestu runnið til góðgerðasamtaka og aðila sem ekki eru reknir í hagnaðarskyni.

Sjá einnig: Sjóður Sonju de Zorrilla fundinn

Almennt eru viðskipti nákominna og tengdra aðila við styrktarsjóði í Bandaríkjunum óheimil nema með sérstökum undantekningum. Undir tengda aðila falla meðal annars sjóðstjórar og fjölskyldur þeirra. Guðmundur A. Birgisson, frændi Sonju, og lögmaðurinn John J. Ferguson voru skipaðir sjóðstjórar sjóðsins í samræmi við erfðaskrá Sonju.

Athygli vekur að dóttir Guðmundar fékk styrk fyrir hluta skólagjalda sinna vegna náms við The New School í New York í Bandaríkjunum, en þar nema full skólagjöld um 5 milljónum íslenskra króna á ári, sem og um 600 þúsund króna styrk fyrir undirbúningsnámskeið. Einnig fékk dóttir Guðmundar ríflega þriggja milljóna króna styrk sem ætlaður var samtökunum Styrkur Org. Að hennar sögn er styrkurinn enn ónýttur en ætlunin sé að nýta hann til að halda minningu Sonju á lofti í mynd, texta og hljóði.

Ávallt hakað við nei

Lagaprófessorarnir sem Viðskiptablaðið hefur rætt við benda á að samþykki þurfi fyrirfram hjá bandarískum skattyfirvöldum, IRS, ætli sjóðir á borð við styrktarsjóð Sonju að styrkja aðra en óhagnaðardrifin félög og stofnanir. Þar með talið ef veita á styrki beint til einstaklinga, sem nokkur dæmi eru um að styrktarsjóður Sonju hafi veitt. Í umsókn til IRS þarf að sýna fram á hvernig jafnræðis sé gætt við styrkveitingar.

Ávallt er hakað við reitinn nei, þegar spurt er hvort slíkir styrkir hafi yfirhöfuð verið veittir nákomnum aðilum eða einstaklingum í ársreikningum styrktarsjóðs Sonju, þó að einstaklingar séu nefndir á nafn í yfirliti yfir styrkþega í sömu ársreikningum. Því virðast þær upplýsingar í ársreikningunum ekki vera fyllilega réttar. John J. Ferguson, lögmaður Sonju og annar sjóðstjóri sjóðsins, svaraði ekki spurningu Viðskiptablaðsins um hvort sótt hafi verið um slíka undanþágu.

Sjá einnig: Styrkir Sonju sjóðsins frá upphafi

Ferguson sagði hins vegar í svörum sínu til blaðsins að Sonja hefði lagt sérstaka áherslu á að dóttir Guðmundar fengi bestu menntun sem völ væri á. Hann hafi því litið á það sem siðferðislega skyldu sína að líta eftir henni.

„Þegar ég vann að drögum að erfðaskránni, þar sem lagður var grunnur að stofnun styrktarsjóðsins, tók hún það skýrt fram að ég þyrfti að hugsa sérstaklega vel um Guðmund og dóttur hans," segir Ferguson.

Góður hugur dugi ekki til

Allison Anna Tait, lagaprófessor hjá Richmond háskóla, og sérfræðingur í bandarískri góðgerðalöggjöf, segir að þó að orð Ferguson lýsi góðum hug þá sé það engu síður í bága við reglurnar að styrkja börn sjóðstjóra. Hafi Sonja viljað styrkja dóttur Guðmundar hefði þurft að gera það með öðrum hætti, til að mynda með því að stofna sérstakan sjóð fyrir hana eða arfleiða hana beint að fé.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .