Fjarskiptafélagið Sýn hefur tvívegis sent kvörtun til ESA, eftirlitsstofnunar EFTA varðandi ríkisaðstoðar til Farice ehf. Þetta kemur fram í ársreikningi samstæðu Sýnar hf.
Sýn sendi kvörtun til ESA þann 23. febrúar 2021 vegna ólögmætrar ríkisaðstoðar til handa Farice ehf. sem hvorki hafði verið tilkynnt eða samþykkt af stofnuninni, að því er kemur fram í ársreikningi. Sýn telur að ríkisaðstoðin, sem varðar greiðslur á grundvelli þjónustusamnings Farice og Fjarskiptasjóðs, ekki hafa verið í samræmi við efni þjónustusamningsins. Vill Sýn meina að ríkið og Farice hafi ekki uppfyllt skilyrði fyrir almannaþjónustu og að háttsemi og aðkoma ríkisins að undirbúningi á þriðja sæstreng Farice kalli á viðbrögð frá ESA. Kvörtunin er enn til athugunar hjá Eftirlitsstofnun ESA.
Þann 26. mars 2021 samþykkti Eftirlitsstofnun EFTA að aukning hlutafjár í Farice ehf. um 50 milljónir evra, til að fjármagna megi sæstreng milli Íslands og Írlands, samræmdist ríkisaðstoðarreglum EES samningsins. Sýn telur hins vegar að ákvörðun ríkisins um að fela Farice lagningu sæstrengs fela í sér ólögmæta ríkisaðstoð og hefur skotið ákvörðuninni til EFTA dómstólsins. Munnlegur málflutningur fór fram 10. febrúar síðastliðinn.
Sýn telur að ESA hafi átt að hefja formlega rannsókn á 50 milljóna evra hlutafjárhækkun í Farice og að ESA hafi ekki rökstutt nægilega ákvörðun sína um að heimila þann ríkisstuðning. Í áfrýjun Sýnar krefst félagið þess að EFTA dómstóllinn áfrýi niðurstöðu ESA um að leyfa hlutafjáraukninguna og að ESA borgi allan lögmannskostnað.
Unnið að lagningu þriðja strengsins
Farice var lagt á laggirnar árið 2003 í þeim tilgangi að byggja upp og veita þjónustu á sviði fjarskipta og gagnaflutninga milli landa. Fyrirtækið rekur nú tvo sæstrengi milli Íslands og Evrópu. Það er annars vegar sæstrengur milli Seyðisfjarðar og Skotlands, með grein til Færeyja, og hins vegar sæstrengur frá Landeyjum á Suðurlandi til Danmerkur. Unnið er að lagningu þriðja strengsins, frá Þorlákshöfn til Galway á Írlandi og að hann verði tekinn í notkun fyrir lok árs 2022.
Í ársskýrslu um ríkisfyrirtæki segir að markmið ríkisins með eignarhaldi á Farice sé að byggja upp og viðhalda öruggum og samkeppnishæfum fjarskiptatengingum milli Íslands og annarra landa á grundvelli langtímahagsmuna landsins. Þess má geta að Farice er með einokun á gagnaflutningum á milli Íslands og annarra landa.